Skrúðganga við setningarathöfn. Ljósm. þa.

Brælustopp í dag á stóru evrópsku sjóstangveiðimóti

Evrópumót í sjóstangveiði var sett við hátíðlega athöfn í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík síðastliðinn sunnudag. Setningin hófst með skrúðgöngu og trommuslætti frá North Star Hotel Ólafsvík að félagsheimilinu. Fánum bæði félaga og þeirra landa sem þátt taka í mótinu var haldið á lofti. Í Klifi setti Horst Schneider forseti EFSA mótið. Kristinn Jónasson bæjarstóri flutti ávarp og bauð gesti velkomna. Endaði hann ræðuna á því að minna gesti á að ef að veðrið væri vont, þá væri ráð að bíða í eina mínútu og það myndi breytast. Að því loknu var boðið upp á íslenska kjötsúpu og brauð. Fyrsti veiðidagur var svo í gær og farið út í tveimur hollum. Í dag er hins vegar bræla og fóru engir bátar til veiða í morgun. Mótið heldur væntanlega áfram á morgun enda spáin betri þá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir