Hvasst á Vesturlandi á morgun

Sólin lætur sjá sig um allt land í dag og víða á morgun en þá gæti 20 gráðu múrinn verið rofinn á landinu. Hitinn verður þó ekki svo mikill á Vesturlandi og þó sólin láti sjá sig er spáð töluverðum vindi á Vesturlandi á morgun. Á vefsíðu Veðurstofunnar segir að vindhviður á Vesturlandi gætu orðið nokkuð snarpar við fjöll á Faxaflóasvæðinu og á Snæfellsnesi. Varasamt gæti verið að vera á ferðinni með létta aftanívagna.

Veðrið í maí hefur ekki leikið við landsmenn og á meðan hitabylgjur ganga yfir víða á meginlandi Evrópu hefur hiti ekki oft farið í tveggja stafa tölu hér á landi og úrkoma verið töluverð. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á Facebook síðu sinni að ekki sé þó öruggt að úrkomumet maímánaðar verði slegið í Reykjavík eins og stefndi mögulega í fyrir helgi. Metið sem er 126,0 mm var sett árið 1989 og eftir síðustu nótt mælist úrkoma það af er maímánaðar þetta árið 125,3 mm. Vantar því ekki mikið upp á að jafna fyrra met. Frekari rigningu er ekki spáð í Reykjavík fram að mánaðamótum svo það er tvísýnt hvort úrkomumetið þar verði slegið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir