Útskriftarhópurinn ásamt skólameistara og aðstoðarskólameistara. Ljósm. tfk.

Útskrift frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Síðdegis í dag brautskráðust 29 nemendur frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Athöfnin hófst á því Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari brautskráði  nemendur og flutti ávarp. Sólrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari afhenti síðan nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Sveitarfélögin sem standa að skólanum gáfu viðurkenningarnar ásamt Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Íslenska stærðfræðifélaginu, hugvísindadeild HÍ, danska sendiráðinu, Arion banka og Landsbankanum.

Ísól Lilja Róbertsdóttir hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi og jafnframt hæstu einkunn á lokaprófi frá upphafi skólans, eða 9,8. Fékk hún veglega bókagjöf frá sveitarfélögunum og peningagjöf frá Landsbankanum. Ísól fékk einnig viðurkenningu frá Arion banka og Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði, verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku, ensku, spænsku, líffræði og eðlis og efnafræði. Hlaut hún Menntaverðlaun Háskóla Íslands og Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík. Henni býðst því niðurfelling skólagjalda fyrstu önnina í HR og fyrsta árið í HÍ kjósi hún að stunda þar nám.

Svana Björk Steinarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði frá Arion banka og Íslenska stærðfræðifélaginu. Hún fékk einnig verðlaun fyrir góðan árangur í eðlis- og efnafræði, íslensku og líffræði. Karítas Bríet Ólafsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í þýsku. Aron Freyr Ragnarsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku. Jón Grétar Breiðfjörð Álfgeirsson hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku og sögu. Guðbjörg Helga Halldórsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í líffræði. Fanney O. Gunnarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku. Anna Soffía Lárusdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði og Haukur Páll Kristinsson fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemendafélagsins.

Stórsveit Snæfellsness spilaði stórt hlutverk í athöfnin eins og svo oft áður enda stolt skólans. Sveitin er skipuð nemendum Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er jafnan fengin til þess að koma fram við hátíðleg tækifæri. Að þessu sinni voru sex útskriftarnemar í stórsveitinni. Flutt tvö þeirra einnig einleik en það voru þau Ísól Lilja Róbertsdóttir og Jón Grétar Breiðfjörð Álfgeirsson. Loftur Árni Björgvinsson flutti kveðjuræðu kennara og starfsfólks og Hildur Björg Kjartansdóttir flutti ræðu fyrir hönd fimm ára stúdenta. Nýstúdentinn Haukur Páll Kristinsson hélt kveðjuræðu nýstúdenta þar sem hann kvaddi skólann og starfsfólk hans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir