Tillaga að útliti hússins við Dalbraut 4 (gul bygging). Þjónustumiðstöðin verður á jarðhæð hússins á um 1270 fm en íbúðir á efri hæðunum. Í kjallara verða bílastæði fyrir íbúa hússins. Fram kom að hluti bílastæða vegna starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar verður að hluta til austan við verslanamiðstöðina.

Þjónustumiðstöð eldri borgara mun rísa við Dalbraut 4

Í dag var boðað til samkomu í sal Félags eldri borgara á Akranesi. Tilefnið var að skrifað var undir samning milli Akraneskaupstaðar og Leigufélagsins Bestla ehf. um byggingu nýrrar þjónustumiðstöðvar sem verður á neðstu hæð fjölbýlishúss sem reist verður á Dalbrautarreitnum á lóð númer 4. Bestla var eina fyrirtækið sem bauð í byggingarrétt á lóðinni í útboði Akraneskaupstaðar sem fram fór í vetur. Ekki var boðið í byggingarrétt á öðrum þremur lóðum á reitnum. Félagsmiðstöðin verður í um 1270 fermetra rými á jarðhæð, bílastæðahús verður í kjallara og íbúðir á efri hæðum þess. Ekki er búið að skipuleggja hvernig þetta rými verður innréttað með þarfir félagsstarfs eldri borgara í huga. Við þessi tímamót sér fyrir endan á margra ára baráttu Félags eldri borgara fyrir bættri félagsaðstöðu í bæjarfélaginu. Núverandi salur við Kirkjubraut 40 er fyrir margt löngu sprunginn utan af starfsemi félagsins, en alla jafnan er um 10% bæjarbúa í Félagi eldri borgara, eða ríflega 700 manns.

Viðar Einarsson formaður FEBAN bauð gesti velkomna og fagnaði þeim áfanga í sögu félagsins sem framundan er. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri fór yfir verkefnið sem og Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs. Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir formaður velferðar- og mannréttindanefndar fór því næst yfir niðurstöður íbúaþings í haust þar sem málefni eldra fólks voru til umræðu. Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulagssviðs hjá Akraneskaupstað kynnti þvínæst fyrirhugaða framkvæmd. Byggingin við Dalbraut 4 verður fyrsta af fjórum stórhýsum sem skipulagið gerir ráð fyrir á Dalbrautarreitnum. Hún mun rísa sunnan við verslanamiðstöðina, við Dalbraut gegnt Krónunni. Búist er við að jarðvegsframkvæmdir geti hafist í haust og áætlað að húsið verði ríflega fokhelt í árslok 2019.

Að lokinni undirskrift. F.v. Jón Ágúst Garðarsson framkvæmdastjóri Bestla, Guðjón Helgi Guðmundsson verkefnisstjóri, Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Viðar Einarsson formaður stjórnar FEBAN.

Líkar þetta

Fleiri fréttir