Þrívíddarmynd af væntanlegu hóteli við Kirkjubraut 39. Til vinstri er hliðin sem snýr að Kirkjubraut. Teikning: Al-Hönnun.

Stefna að byggingu 55 herbergja hótels á Akranesi í haust

Uppbygging ehf., fyrirtæki Engilberts Runólfssonar og Kristínar Minneyjar Pétursdóttur, hefur lagt inn til Akraneskaupstaðar fyrirspurn um byggingu 55 herbergja hótels á lóðinni Kirkjubraut 39, þar sem nú stendur hús fyrrum Fólksbílastöðvar Akraness og síðar Málningarbúðarinnar. Uppbygging keypti lóðina fyrr á þessu ári af Skagaverki ehf. Í kjölfar þess að skipulags- og umhverfisnefnd tók jákvætt í erindið á fundi í gær hefjast nú viðræður um fjármögnun og samningar við væntanlegan rekstraraðila hótelsins. „Ef þessar viðræður ganga vel, eins og búist er við, er ekkert því til fyrirstöðu að framkvæmdir á lóðinni hefjist með niðurrifi hússins og jarðvegsframkvæmdum nú í haust. Framkvæmdatíminn verður svo um 12-14 mánuðir,“ segir Engilbert í samtali við Skessuhorn. „Það er náttúrlega löngu tímabært að hér á Akranesi rísi hótel. Þrátt fyrir að nú séu ákveðnar blikur á lofti vegna þess að dregið hefur úr fjölgun ferðamanna milli ára, er ég ekki í vafa um að markaður sé fyrir gott hótel á Akranesi. Akranes verður einfaldlega ekki alvöru ferðaþjónustubær fyrr en bætist við það gistirými sem í boði hefur verið,“ segir Engilbert.

Væntanlegt hótel verður 55 herbergja, um 2.650 fermetrar að flatarmáli. Á götuhæð verður móttaka, skrifstofur og morgunverðarsalur, en á næstu tveimur hæðum herbergi. Í léttbyggðri og inndreginni fjórðu hæð verða nokkur herbergi og veislusalur. Húsið verður byggt í L samsíða Kirkjubraut og Háholti og bakvið það, á svæðinu sem snýr að íbúðum í gamla bókasafnshúsinu, verður garður og bílastæði. Áætlaður byggingakostnaður er 750 milljónir króna.

Engilbert Runólfsson hjá Uppbyggingu ehf. Bakvið hann sést væntanlegt framkvæmdasvæði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir