Hópurinn sem mætti til að afhenda undirskriftirnar síðdegis í gær. Ljósm. sm.

Fresta sölu á Laugum í Sælingsdal

Eins og sagt var frá á vef Skessuhorns í gær fékk sveitarstjórn Dalabyggðar afhentan undirskriftarlista fyrir fund sinn í gær. Þar var óskað eftir íbúakosningu um tillögu Arnarlóns ehf. frá 13. maí sl. um kauptilboð á Laugum í Sælingsdal. Sömuleiðis var því mótmælt að Dalabyggð lánaði fyrir hluta af kaupverðinu.

Höfðu 43% kosningabærra manna í sveitarfélaginu lagt nafn sitt við listann, eða 213 af 495 manns á kjörskrá. Skv. samþykktum Dalabyggðar þarf undirskrift 30% kjörgengra íbúa til að óska eftir íbúakosningu.

Undirskriftirnar voru afhentar sveitarsjórn fyrir fund hennar í gær, þar sem fjalla átti um söluna á Laugum. Hópnum var boðið að sitja fundinn til áheyrnar undir þeim lið. Niðurstaðan varð sú að sveitarstjórn ákvað að vísa málinu til nýrrar sveitarstjórnar. „Í ljósi umræðu í samfélaginu og á samfélagsmiðlum og nýfenginna undirskrifta er lagt til að málinu verði vísað til afgreiðslu nýrrar sveitarstjórnar sem tekur við stjórn sveitarfélagsins þann 10. júní næstkomandi,“ segir í tillögu sveitarstjórnar sem samþykkt var einu hljóði. Sveitarstjórn tók þó fram að hún teldi tilboðið ágætlega til þess fallið að ljúka sölu á eignum sveitarfélagsins að Laugum og þar með renna stoðum undir uppbyggingu íþróttamannvirkja í Búðardal.

Líkar þetta

Fleiri fréttir