Brautskráð frá Menntaskóla Borgarfjarðar

Í dag var brautskráning frá Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. 27 nemendur voru brautskráðir við hátíðlega athöfn. Nemendur útskrifuðust af félagsfræðabraut, náttúrufræðibraut, íþróttafræðibraut bæði af félagsfræða- og náttúrufræðasviði og af opinni braut. Hæstur á stúdentsprófi að þessu sinni var Steinþór Logi Arnarsson frá Stór-Holti í Saurbæ í Dölum. Steinþór fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur, þar á meðal fyrir besta námsárangur á stúdentsprófi og vandaðasta lokaverkefnið. Svava Sjöfn Kristjánsdóttir sem kláraði stúdentspróf um áramót var næsthæst á stúdentsprófi við  þessa útskrift. „Fjölmargir nemendur fengu einnig viðurkenningu en starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar er einstaklega stolt af sínu fólki,“ segir í frétt frá skólanum.

Ávarp nýstúdenta að þessu sinni flutti Guðrún Gróa Sigurðardóttir. Gestaávarpið flutti Helga Halldórsdóttir en hún var formaður byggingarnefndar skólans sem er tíu ára. „Við óskum útskriftarnemum innilega til hamingju með daginn og óskum þeim velfarnaðar í því sem þeir taka sér fyrir hendur með þökk fyrir samstarfið á liðnum árum,“ segir í frétt MB.

Líkar þetta

Fleiri fréttir