
Bærinn styður við framkvæmdir Skotfélags Akraness
Þriðjudaginn 22. maí var skrifað undir framkvæmdasamning milli Akraneskaupstaðar og Skotfélags Akraness. Um er að ræða fjárhagsstuðning vegna framkvæmda á athafnasvæði félagsins. Snúa þær að því að koma upp vatni og hreinlætisaðstöðu, leggja rafmagn á svæðið í stað þess að nota ljósavél og girða hluta svæðisins betur af. Bæjarráð samþykkti fjárveitinguna í lok mars en áætlað er að framkvæmdirnar kosti um fimm milljónir króna.
Skotfélag Akraness er ört stækkandi íþróttafélag innan vébanda Íþróttabandalags Akraness. Virkir félagsmenn eru í dag um eitt hundrað talsins, bæði konur og karlar. Félagið státar í dag af bikarmeistara og landsliðsmanni í haglabyssuskotfimi. Haldin hafa verið landsmót og Íslandsmeistaramót í haglabyssuskotfimi á félagssvæði Skotfélags Akraness, sem og skotvopnanámskeið ásamt hæfnisprófi fyrir hreindýraveiðimenn. Landsliðsæfingar bæði karla og kvenna hafa verið haldnar á svæðinu, þar sem bestu skotmenn landsins koma saman.