Guðrún Hjaltalín, formaður Skotfélags Akraness og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri handsala samninginn. Ljósm. akranes.is.

Bærinn styður við framkvæmdir Skotfélags Akraness

Þriðjudaginn 22. maí var skrifað undir framkvæmdasamning milli Akraneskaupstaðar og Skotfélags Akraness. Um er að ræða fjárhagsstuðning vegna framkvæmda á athafnasvæði félagsins. Snúa þær að því að koma upp vatni og hreinlætisaðstöðu, leggja rafmagn á svæðið í stað þess að nota ljósavél og girða hluta svæðisins betur af. Bæjarráð samþykkti fjárveitinguna í lok mars en áætlað er að framkvæmdirnar kosti um fimm milljónir króna.

Skotfélag Akraness er ört stækkandi íþróttafélag innan vébanda Íþróttabandalags Akraness. Virkir félagsmenn eru í dag um eitt hundrað talsins, bæði konur og karlar. Félagið státar í dag af bikarmeistara og landsliðsmanni í haglabyssuskotfimi. Haldin hafa verið landsmót og Íslandsmeistaramót í haglabyssuskotfimi á félagssvæði Skotfélags Akraness, sem og skotvopnanámskeið ásamt hæfnisprófi fyrir hreindýraveiðimenn. Landsliðsæfingar bæði karla og kvenna hafa verið haldnar á svæðinu, þar sem bestu skotmenn landsins koma saman.

Líkar þetta

Fleiri fréttir