Vesturgata malbikuð

Síðdegis í dag var hafist handa við að malbika Vesturgötu á Akranesi, en umfangsmiklar framkvæmdir við endurnýjun götunnar frá Stillholti að Merkigerði hófust síðasta sumar. Kaflinn sem byrjað var að malbika í dag er síðasti hluti verksins, frá Vesturgötu 119 að Merkigerði. Vinna hófst við þann hluta götunnar að nýju fyrr í vor, þegar frost tók úr jörðu.

Guðmundur Guðjónsson hjá Skóflunni hf., sem fer með verkið, segir meininguna að klára að malbika götuna í dag. Síðan er reiknað með því að leggja kantstein á morgun, nema veðrið setji strik í reikninginn. „Gatan verður síðan opnuð fyrir kosningar þannig að allir geti nú komið keyrandi á kjörstað,“ segir Guðmundur léttur í bragði.

Í beinu framhaldi því hefst svo vinna við endurnýjun eða endurbætur á gangstéttunum eftir því sem við á. Síðan verður unnið að frágangi á svæðinu öllu fram eftir júnímánuði. Þurfa íbúar við götuna ekki að búast við teljandi truflunum vegna vinnu við gangstéttar og frágang.

Líkar þetta

Fleiri fréttir