Í fararbroddi í þjónustu við börn nýbúa

Alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar var 15. maí síðastliðinn. Af því tilefni var veitt hin árlega fjölskylduviðurkenning SOS Barnaþorpa. Með henni vilja samtökin vekja athygli á einstaklingum, hópum, fyrirtækjum eða samtökum sem starfa í þágu fjölskyldna á Íslandi og hafa velferð barna að leiðarljósi. Í ár heiðra samtökin kennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum fyrir þeirra störf í þágu velferðar nemenda sinna. Vilborg Guðný Valgeirsdóttir, aðstoðarskólastjóri í leikskólanum Vallarseli á Akranesi, tók við viðurkenningunni fyrir hönd leikskólakennara landsins. Felst ákveðin viðurkenning í því að fulltrúi skólans fái að taka við verðlaunum fyrir hönd stéttarinnar allrar. Vallarsel hefur enda verið í fararbroddi á ýmsum sviðum, meðal annars í þjónustu við börn nýbúa. Þá var skólinn fyrr í mánuðinum valinn Stofnun ársins í flokki minni stofnana, annað árið í röð. Það eru félagsmenn í St.Rv. sem gangast fyrir valinu. Skrifstofur Akraneskaupstaðar lentu vel að merkja í öðru sæti.

Blaðamaður Skessuhorns hitti að máli Vilborgu og Brynhildi Björgu Jónsdóttur skólastjóra og ræddi við þær um viðurkenningarnar og starf skólans, einkum þjónustu skólans við nýbúabörn. Báðar eru þær hæstánægðar að skólinn hafi fengið viðurkenningar fyrir gott starf. „Starfsfólk leikskólans leggur sig fram um að gera vel innan veggja skólans og það er ánægjulegt að eftir því sé tekið,“ segir Vilborg. „Að vera valin stofnun ársins annað árið í röð er besta viðurkenning sem hægt er að fá fyrir stjórnanda, því það er starfsfólkið sem velur,“ segir Björg. „Við erum stoltar, ánægðar og þakklátar að hafa fengið þessa viðurkenningu á okkar starfi. Gríðarlega faglegt og gott starf er unnið innan veggja allra leikskóla Akraneskaupstaðar,“ bætir hún við.

Ítarlega er rætt við þær Brynhildi Björg og Vilborgu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir