Ungmenni ræddu saman um íþróttir og forvarnir

Um 130 ungmenni af elsta stigi grunnskólanna í Borgarbyggð komu í síðustu viku saman til fundar í Logalandi, að frumkvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar. Tvö umræðuefni voru tekin fyrir. Annarsvegar hvaða breytingar vilja ungmenni sjá á íþróttastarfi í sveitarfélaginu og hins vegar hvernig fræðslu um forvarnir óska ungmennin eftir og hvernig er heppilegast að koma skilaboðum og upplýsingum til þeirra. Anna Lilja Björnsdóttir frá KVAN flutti erindi um að vera besta útgáfan að sjálfum sér. Umræðustjórn og fundarritun var í höndum ungmenna úr hópnum, en fundarstjóri var Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB. „Nemendurnir voru duglegir og komu með flottar ábendingar og hugmyndir sem verða teknar áfram og unnið áfram með innan ungmennafélagshreyfingarinnar,“ sagði Sigurður.

Á vef UMFÍ er greint frá fundinum. Þar segir að það hafi vakið athygli í umræðunum að oft kom upp ósk um upphitaðan gervigrasvöll og stærra íþróttahús í sveitarfélaginu. Jafnframt komu fram óskir um val á fleiri íþróttagreinum eins og handbolta, dansi, skotfimi, bogfimi, motocrossi og hestamennsku. Einnig komu fram óskir um markvissari kynningu á því sem er nú þegar er í boði. Ungmenni voru ánægð með frístundaaksturinn en væru til í að hafa hann í boði á fleiri dögum og einnig heimakstur eftir æfingar. Í seinna umræðuefninu, þar sem fjallað var um forvarnir og fræðslu, komu fram óskir um fræðslu um ofþjálfun, meiðsli í hnjám, kvíða, félagslega einangrun, svefn og vímuefna- og áfengisneyslu. Ungmennin voru á því að heppilegast væri að nálgast þau með því að koma í skólann með fræðslu og best væri ef viðkomandi talaði af reynslu um hlutina. Einnig kom fram að stutt myndbönd næðu helst til þeirra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir