Hvítur stelkur heldur til í Ólafsvík

Hvítur stelkur hefur undanfarna viku haldið sig í holtunum fyrir ofan Ennisbraut í Ólafsvík. Hefur hann verið á vappi þar ásamt öðrum stelk, en það var Anton Gísli Ingólfsson íbúi við Ennisbraut 37 sem benti ljósmyndara á fuglinn. Haft var samband við Guðmund A. Guðmundsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og staðfesti hann að um stelk væri að ræða. Minnti Guðmundi að sést hefði til hvíts stelks á svæðinu fyrir tveimur til þremur árum. Ekki væri þó endilega um sama fugl að ræða en skyldleiki gæti verið milli þeirra.

Hvítir stelkir eru ekki algengir og sjást raunar mjög sjaldan. En stelkir eru venjulega grábrúnflikróttir að ofan og ljósari að neðan og minnst flikróttir á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi og er stélið þverrákótt. Stelkur er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfuglar eru brúnleitir að ofan með gula fætur. Ekki sást hreiður í nágrenninu en líklegt er að stelkur þessi eigi hreiður nálægt þar sem stelkir gera sér hreiður í graslendi, mýrum og oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjörðum eða við sveitabæi. Stelkurinn er einnig áberandi á varpstöðum sínum og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður hans eða unga um of. Virtust stelkirnir sprækir þó veðrið undanfarið hafi ekki verið upp á það besta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir