Ný stofnun á að bæta gæði heilsugæslu um allt land

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í síðustu viku ákvörðun sína um að auka til muna fjármuni til að efla og þróa heilsugæsluþjónustu á landinu: „Markmiðið er ekki síst að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum,“ segir heilbrigðisráðherra. Þróunarmiðstöð sem sett verður á laggirnar mun hafa 13 starfsmenn. Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður tæpar 230 milljónir króna og mun þróunarmiðstöðin verða til húsa innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu mun byggja á grunni hennar, en fær aukið sjálfstæði, víðtækara hlutverk og mun sem fyrr segir leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu, hvort sem hún er veitt af hinu opinbera eða einkarekin.“

Þá er horft til þess að með Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar skapist stóraukin tækifæri fyrir fagfólk heilsugæslunnar um allt land, til virkrar þátttöku í gæða- og þróunarverkefnum sem torvelt hefur verið að sinna á minni stöðum. Þetta muni styrkja faglegt starf innan heilsugæslu á landsbyggðinni og einnig skapa aukin tækifæri til að miðla þekkingu og reynslu milli stofnana og rekstrareininga. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð sem kveður á um starfsemi Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar og verður hún birt í Stjórnartíðindum á næstu dögum.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir