Vegagerð. Myndin er ekki beint tengd fréttinni. Ljósm. úr safni.

Fimm prósent aukins vegafjár á Vesturland

Samkvæmt frétt Stöðvar2 síðastliðinn fimmtudag er Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, í samráði við Vegagerðina, búinn að ráðstafa þeim fjórum milljörðum króna sem ríkisstjórnin ákvað að verja til aukinna vegaframkvæmda á þessu ári, umfram fjárlög. Athygli vekur að upplýsingar um ráðstöfun fjárins hafa ekki verið birtar opinberlega á upplýsingavefjum ráðuneytisins né hjá Vegagerðinni. Samkvæmt fréttinni er eina vegaframkvæmdin sem rennur á Vesturland uppbygging þriggja kílómetra langs vegarkafla í Laxárdal í Dölum, frá Lambeyrum að Gröf. Er sú framkvæmd talin kosta 200 milljónir króna. Það framlag er um 5% af fyrrgreindu viðbótarframlagi ríkissjóðs.

Samgönguráðherra og vegamálastjóri hafa nú, samkvæmt fréttinni, gefið vegagerðarmönnum fyrirmæli um að láta þessa peninga sem um ræðir komast strax í vinnu. 2,4 milljarðar króna, eða um 60 prósent framlagsins fer til viðhalds eldri vega. „Viðhaldsþörfin er mjög mikil og síðan er hægur leikur að auka þar við umfang verka, þannig að það er þægilegra að koma þeim fjármunum í vinnu,“ segir forstöðumaður viðhaldsdeildar Vegagerðarinnar í samtali við Stöð 2. Stærstu viðhaldsverkin verða á Gullna hringnum í uppsveitum Árnessýslu.

Meðal stærstu nýframkvæmda, samkvæmt frétt Stöðvar 2, eru Grindavíkurvegur, Dettifossvegur og Borgarfjörður eystri meðal þeirra sem njóta góðs af þessu viðbótarfé. Til nýframkvæmda fara 1.640 milljónir króna en þeim fjármunum verður meðal annars ráðstafað til að stækka verkáfanga, sem þegar eru í framkvæmd, eins og á Dettifossvegi. 350 milljónum verður bætt í Grindavíkurveg, ofan á 200 milljónir, sem áður voru ákveðnar. Þar verða akstursstefnur skildar að á sex kílómetra kafla milli Bláalónsvegar og Reykjanesbrautar, og hraðaeftirlitsmyndavélar settar upp. Í Reykjanesbraut fara 50 milljónir til að undirbúa tvöföldun í gegnum Hafnarfjörð, milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Ljúka á gerð útboðsgagna svo unnt verði að bjóða verkið út snemma árs 2019. Í Suðurlandsveg um Ölfus fara 300 milljónir, sem fyrsti áfangi að breikkun milli Hveragerðis og Selfoss, en framkvæmdin kostar alls 5,5 milljarða króna. Í Þingvallaveg um þjóðgarðinn fara 250 milljónir. Bæta á veginn frá þjónustumiðstöð að Vallavegi. Norðanlands fara 70 milljónir í malbik að Dagverðareyri og 200 milljónir í Dettifossveg, milli Súlnalækjar og Ásheiðar. Áætlað er að enn vanti 1.400 milljónir til að klára Dettifossveg að vestanverðu. Austanlands fara 220 milljónir í slitlag á tvo kafla til Borgarfjarðar eystri. Af þeim fara 120 milljónir í Borgarfjarðarveg við Vatnsskarðsvatn og í Njarðvík og 100 milljónir í Njarðvíkurskriður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir