Frá undirritun viljayfirlýsingar. Sitjandi við borð voru þau sem rituðu undir. F.v. Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, Guðrún S Gísladóttir frá Vinnumálastofnun, Þórður Már Gylfason framkvæmdastjóri Sansa, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Inga Dóra Halldórsdóttir frá Starfsendurhæfingu Vesturlands. Ljósm. Skessuhorn/mm

Viljayfirlýsing um veitingastað með nýrri nálgun

Á Sansa streetfood mun fólk með skerta starfsgetu fá tækifæri til atvinnu

 

Í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu í bæjarþingsalnum á Akranesi um að hefja með formlegum hætti undirbúning að þróunarverkefni sem miði að stofnun nýs veitingastaðar á Akranesi. Sérstaða þessa veitingastaðar verður sú að þar verður boðið upp á fjölbreyttan og spennandi mat af hlaðborði. Markmiðið er að fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu í aðgengilegu umhverfi án aðgreiningar, þannig að hæfileikar hvers og eins fái notið sín. Að samkomulaginu standa Sansa veitingar ehf með Þórð Má Gylfason í broddi fylkingar, en auk þess Starfsendurhæfing Vesturlands, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Vinnumálastofnun og Akraneskaupstaður. Þá nýtur verkefnið stuðnings félagsmálaráðuneytis.

Í viljayfirlýsingu þessara aðila segir m.a.: Forsvarsmenn Sansa veitinga ehf. hafa sýnt áhuga á að fyrirtækið verði skipað starfsfólki þar sem margbreytileiki ríkir í starfsmannahópnum og virðing sé borin fyrir fjölbreytileika fólks. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja ráða til sín fólk með skerta starfsgetu til starfa í allt að sex stöðugildi, þar af þrjú stöðugildi fyrir fatlaða einstaklinga. Fulltrúar samstarfsaðila munu kanna hvort hægt verði að fara í samstarf til lengri tíma með framangreind markmið að leiðarljósi og er stefnt að því að verkefnið fari í gang haustið 2019.“

Í kynningu á verkefninu áður en skrifað var undir viljayfirlýsinguna sagði Þórður Már Gylfason hjá Sansa veitingum að hugmyndin hafi kviknað fyrir nokkru. Hún hafi fengið afar jákvæðar viðtökur þeirra sem hlut eiga að máli og niðurstaðan sé fyrrgreind viljayfirlýsing sem komi málinu á betri rekspöl. Sagði Þórður að stefnt væri að því að stofna veitingastaðinn Sansa Street food þar sem daglega væri boðið upp á hlaðborð með fjölbreyttum réttum. Sagði hann draumastaðsetninguna nærri Akraneshöfn, en ekki væri búið að ákveða endalegan stað. Meginstefið í viðskiptahugmyndinni væri að skapa fólki með skerta starfsorku tækifæri til starfa á eigin forsendum hvort sem væri í hlutastarfi eða fullu. Því hafi hann leitað til fyrrgreindra samstarfsaðila um styrk og stuðning um að hrynda verkefninu í framkvæmd. Áætlað er að verkefni þetta kosti um 80 milljónir króna í stofnfjárfestingu.

Viðstaddur kynningu á verkefninu voru m.a. forsvarsmenn stofnana sem í hlut eiga, bæjarfulltrúar á Akranesi og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. Lýsti ráðherra ánægju sinni með hugmyndina og hét öllum þeim stuðningi sem í sínu valdi stæði til að verkefni þetta fengi brautargengi. Vísaði hann til Vinnumálastofnunar sem framkvæmdaraðila.

Líkar þetta

Fleiri fréttir