Skúli Þórðarson og Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður glugga hér í gömul gögn hreppanna. Ljósm. Hvalfjarðarsveit.

Skjalasöfn gömlu hreppanna afhent hérðasskjalasafni

Í liðinni viku afhenti Skúli Þórðarson sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar til varðveislu skjalasöfn Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps, Leirár- og Melahrepps og Skilmannahrepps. Um er að ræða skjöl sem ná fram til þess tíma er sveitarfélögin voru sameinuð í júnímánuði 2006 og Hvalfjarðarsveit varð til.

Frá því í febrúar síðastliðnum hafa Birna Mjöll Sigurðardóttir og Erla Dís Sigurjónsdóttir, skjala- og upplýsingafræðingar, unnið fyrir Hvalfjarðarsveit að flokkun, skráningu og pökkun skjala og gagna frá umræddum sveitarfélögum. „Verkinu skiluðu þær með miklum sóma þann 9. maí síðastliðinn og eru þeim færðar þakkir fyrir vel unnið starf, fagleg vinnubrögð og vandaðan frágang,“ segir Skúli Þórðarson sveitarstjóri. „Það er afar ánægjulegt að tekist hafi að ljúka verkefni þessu en sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur lagt áherslu á að koma þessum menningarverðmætum í aðgengilega skrá og varanlega geymslu.“

Það var Jóhanna Skúladóttir, héraðsskjalavörður í Safnahúsi Borgarfjarðar, sem tók á móti skjalasafninu en eins og sést á meðfylgjandi myndum er það mikið að vöxtum eða um 245 öskjur með um 14,5 hillumetrum af skjölum. Skjölin eru mikilsverð heimild um starf og sögu hreppanna auk þess að tryggja upplýsingarétt einstaklinga sem góðar stjórnsýsluvenjur krefjast.

Líkar þetta

Fleiri fréttir