Ný vefsíða Snæfellsbæjar

Opnuð hefur verið ný vefsíða sveitarfélagsins Snæfellsbæjar. Er hún aðgengileg á sömu vefslóð og áður, www.snb.is. Í frétt um málið á nýja vefnum segir að það sé von stjórnenda Snæfellsbæjar að ný vefsíða geti stuðlað að auknu upplýsingaflæði til íbúanna og gegnsærri stjórnsýslu.

Einfaldleikinn var hafður í fyrirrúmi við hönnunina og að hafa nýju vefsíðuna notendavænni en þá eldri. Hún er bjartari yfirlitum en gamla vefsíðan og snjöll, það er að segja skynjar hvaða tæki er notað til að skoða síðuna og lagar sig að tækjum í samræmi við skjástærð.

Þá er þess getið að vefsíður séu í stöðugri þróun og enn standi nokkur verk óunnin við nýju síðuna. Því kunni lesendur að verða varir við einstaka villur. Eru íbúar beðnir velvirðingar á því og beðnir að senda ábendingar um það sem betur má fara á Heimi Berg Vilhjálmsson, markaðs- og upplýsingafulltrúa Snæfellsbæjar á netfangið heimir@snb.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir