Þessi mynd sýnir veðrið í Borgarfirði í morgun. Ljósm. Kristín Jónsdóttir.

Afleitt tíðarfar fyrir lambféð og bændur

Veðráttan það sem af er maímánuði hefur verið afleit fyrir sauðfjárbændur. Þrálát kuldatíð og ekki síst úrkoma gerir það illmögulegt að hleypa lambfé út. Plássleysi í fjárhúsum hrjáir bændur því víða. Jón Eyjólfsson sauðfjárbóndi á Kópareykjum í Reykholtsdal segir að 330 kindur beri hjá sér í vor og þar af eru 65 enn óbornar. „Maímánuður hefur verið sérdeilis leiðinlegur í veðri og hún er slæm þessi þráláta vestanátt. Það byrjaði að bera hjá mér 2. maí og sauðburðurinn er langt kominn. Það kom sér vel núna að ég skyldi eftir lepp af ull á bakhluta ánna við rúning í vor, en það hlýfir þeim vel og þær missa síður nyt þegar er svona kalt er í veðri. Best er þegar svona viðrar að bíða með að hleypa fénu út, en lambfé þarf að lágmarki að hafa skjól. Maður bíður bara eftir að hlýni og þorni um, en það er ljós í myrkrinu að það er þó komið gras.“

Jón segir að frjósemin sé góð hjá sér. „En það er eins og fyrr, manni finnst alltof mörg lömb að vori, en alltof fá á haustin.“ Jón segist þó geta sjálfum sér um kennt að hafa hleypt svona snemma til. „Ég hefði betur hlustað á hann karl föður minn, hann sagði mér að hleypa seint til ánna, það væru jú slétt hundrað ár frá frostavetrinum mikla og hann sá það fyrir karlinn að það yrði erfitt vor.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira