Lögregla stöðvaði í gær meinta ólöglega innheimtu bílastæðagjalds við Hraunfossa. Á meðfylgjandi mynd er lögregla að tilkynna Guðlaugi Magnússyni hjá H-fossum ehf. þessa ákvörðun.

Telja ófært að leigutaki innheimti vegtoll

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í dag var m.a. rætt um innheimtu vegtolla við Hraunfossa sem stóð yfir tvo daga fyrr í vikunni, en var stöðvað í gær að kröfu Vegagerðarinnar og lögreglustjórans á Vesturlandi. Byggðarráð bókaði eftirfarandi:

„Hraunfossar hafa verið friðlýst svæði frá árinu 1987. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á Hraunfossum og nánasta umhverfi þeirra samkvæmt sérstakri auglýsingu nr. 410/1987. Umhverfisstofnun hefur einnig komið að fjármögnun á uppbyggingu göngustíga og útsýnispalla í þeim tilgangi að ferðafólk geti notið fegurðar Hraunfossa án þess að spilla nærliggjandi umhverfi. Einnig ber Umhverfisstofnun ábyrgð á landvörslu á svæðinu. Vegagerðin hefur lagt veg að svæðinu fyrir opinbert fé svo og byggt upp bílastæði. Borgarbyggð hefur einnig lagt fjármagn í uppbyggingu á aðstöðu á svæðinu til að auðvelda aðkomu ferðafólks að því og tryggja vernd náttúrunnar á hinu friðlýsta svæði. Einnig hefur Borgarbyggð kostað hreinlætisaðstöðu við Hraunfossa um langt árabil. Því vekur það furðu að leigutakar jarðarinnar Hraunás skuli á nýjan leik hefja töku vegtolla fyrir eigin ábata inn á fyrrgreint svæði án þess að hafa á nokkurn hátt lagt fé til uppbyggingar á þeirri aðstöðu sem er þar til staðar. Byggðarráð Borgarbyggðar telur slíkt athæfi ófært og skorar á lögreglustjórann á Vesturlandi og Umhverfisstofnun að tryggja að innheimtu vegtolla við Hraunfossa verði tafarlaust hætt.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir