Nýja skólphreinsistöðin er á mótum Ægisbrautar og Esjubrautar. Ljósm. Veitur.

Ný skólphreinsistöð tekin í notkun á Akranesi

Síðastliðinn miðvikudag tóku Veitur í notkun nýja hreinsistöð skólps við Ægisbraut 31 á Akranesi. Bætist bærinn þar með í hóp þeirra sveitarfélaga sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð og stórt skref er jafnframt stigið í umhverfismálum. Fyrir uppbyggingu fráveitunnar rann óhreinsað skólp út um átta meginútrásir, nálægt fjöruborði. Nú er skólpi veitt frá þessum útrásum og í hreinsistöðina við Ægisbraut. Uppbygging kerfisins fól í sér, auk hreinsistöðvarinnar, uppsetningu á sex nýjum dælubrunnum sem dæla skólpinu frá gömlu útrásunum í átt að hreinsistöðinni, nokkrum kílómetrum af nýjum lögnum á landi auk sjólagnar. Stöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er að endingu dælt um hálfan annan kílómetra í sjó fram.

 

Á sex stöðum á Vesturlandi

Hönnun mannvirkisins hófst árið 2006 og var smíði þess boðin út í áföngum hrunárin 2007 og 2008. Árin 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og lokið við megnið af lagnavinnunni. Þar sem Orkuveita Reykjavíkur, móðurfélag Veitna, fór illa út úr bankahruninu varð fjárhagur fyrirtækisins afar erfiður og framkvæmdum því slegið á frest. Þráðurinn var tekinn upp að nýju á Akranesi árið 2015 þegar lögð var lögn í sjó fram. Í Borgarbyggð reka Veitur nú fjórar tveggja þrepa hreinsistöðvar á Varmalandi, Reykholti, Bifröst og Hvanneyri. Á næstu vikum verður svo ný hreinsistöð sambærileg þeirri á Akranesi tekin í notkun í Borgarnesi.

 

Góð umgengni mikilvæg

Undanfarin misseri hafa Veitur staðið fyrir átakinu „Blautþurrkan er martöð í pípunum,“ sem ætlað er að vekja athygli á því að klósett eru ekki ruslafötur. Í þau eiga ekki að fara blautþurrkur, bindi, eyrnapinnar, tannþráður eða aðrar hreinlætisvörur. Á hverjum degi berst gríðarlegt magn af rusli í hreinsistöðvarnar Veitna. „Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Með því að minnka magn óæskilegra hluta og efna sem við sendum í fráveituna getum við lækkað kostnað verulega. Til viðmiðunar þá sturtum við fjórfalt meira niður af slíku en Svíar. Fita og olía á heldur ekki heima í fráveitukerfinu. Fita og blautklútar eru til dæmis slæm blanda. Úr þeim efnivið geta orðið til svokallaðir fituhlunkar, eða „fatbergs“ eins og þeir heita upp á ensku. Þeir eru stórt vandamál í fráveitukerfum víða um heim og hér á landi einnig. Málning, leysiefni, lyf og önnur efni eiga heldur ekkert erindi í niðurföllin, því skal skila í endurvinnslu.“

Svipmynd innan úr nýju stöðinni. Ljósm. HH.

Guðrún Erla Jónsdóttir stjórnarformaður Veitna, Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri. Ljósm. Hrafnhildur Harðard.

Líkar þetta

Fleiri fréttir