Samið um ný hjúkrunarrými og endurbætur á HVE í Stykkishólmi

Samkomulag hefur tekist milli Svandísar Svavarsdóttur velferðarráðherra og Stykkishólmsbæjar um að hefja uppbyggingu og breytingar á hluta húsnæðis Sjúkrahúss HVE í Stykkishólmi fyrir hjúkrunarheimili. Skrifað verður undir samning þar að lútandi eftir hádegi í dag. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist af krafti á næsta ári og ljúki 2021. Heildar kostnaður við verkið er tæpar 600 milljónir króna. Þar af greiðir Stykkishólmsbær um 17% og ríkissjóður 83%. Byggð verður upp átján rúma hjúkrunarheimili með allt að fjórum dagdvalarrýmum og fjögurra rúma sjúkradeild. Auk þess er gert ráð fyrir fimmtán rúmum fyrir bakdeild HVE. Einnig verður heilsugæslan til húsa á sama stað eins og verið hefur.

Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólms síðastliðinn þriðjudag segir að með samkomulaginu um uppbyggingu og um leið breytingu á hluta húsnæðis sjúkrahússins í Stykkishólmi fyrir hjúkrunarheimili sé náð mikilvægum áfanga. „Samningurinn tryggir til framtíðar þjónustu við aldraða í Stykkishólmi en um leið framtíð St.Fransickussjúkrahússins sem rekið er á vegum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands,“ segir í bókun bæjarstjórnar. Þá segir jafnframt að með sérstakri fjárveitingu til endurbóta eldhúss og matsalar sjúkrahússins hafi reynst fært að sameina eldhús sjúkrahúss og dvalarheimils. Hið fullbúna eldhús er nú rekið af dvalarheimilinu en eftir að framkvæmdum lýkur tekur HVE við rekstri þess. Í nýja eldhúsinu er auk þess framleiddur matur fyrir grunnskóla bæjarins og segir Sturla Böðvarsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn að mikil ánægja sé með það fyrirkomulag og þar að auki feli það í sér mikið hagræði fyrir hlutaðeigandi rekstraraðila. Þá segir í bókun bæjarstjórnar: „Með þeim framkvæmdum var verkið hafið og því ekki aftur snúið enda mikilvæg hagræðing fólgin í þeirri framkvæmd. Allar aðgerðir hafa síðan miðast við að hjúkrunarheimilið verði hluti St.Fransciskusspítala. Með samruna Dvalarheimilis aldraðra og hjúkrunarheimils St.Fransickusspítalans er tryggð sú mikilvæga þjónusta sem krafa er gerð um og mikil þörf er á. Jafnframt er gert ráð fyrir því að bæjarsjóður breyti núverandi húsnæði Dvalarheimilisins í leiguíbúðir fyrir aldraða ásamt með þjónustumiðstöð fyrir heimaþjónustu aldraðra.“

Í bókun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar er einnig tekið fram að í nærri tvö kjörtímabil hafi bæjarstjórn unnið fullkomlega samhent að því verkefni að ná samningi við Velferðarráðuneytið sem nú er í höfn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir