Hér má sjá hvernig kosningaþátttaka hefur þróast hér á landi. Samfelld fækkun hefur verið á kjörstað síðan 2002. Langmest dró úr kosningaþátttöku við síðustu kosningar árið 2014. Heimild: Hagstofa Íslands.

Mest kosningaþátttaka var árið 1974

Margir óttast að fyrir komandi kosningar til sveitarstjórna að kosningaþátttaka verði dræm. Blaðamenn Skessuhorns hafa að undanförnu rætt við nokkra frambjóðendur á Vesturlandi og taka þeir undir þær áhyggjur. Engu að síður segja þeir að áhugi almennings fyrir framboði þeirra hafi aukist nú á allra síðustu dögum.

Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum jókst frá 1950 til 1974 en hefur minnkað samfellt frá árinu 2002. Hina auknu þátttöku á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar má að mestu skýra með dræmri kosningaþátttöku í sveitahreppum fyrst í stað sem smám saman jókst án þess þó að ná sambærilegu hlutfalli og hún var í kaupstöðum og svokölluðum kauptúnahreppum þess tíma. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að í sveitarstjórnarkosningum var þátttakan mest árið 1974 þegar hún var 87,8%. Til samanburðar má nefna að í alþingiskosningum var mest kosningaþátttaka árið 1956, eða 92,1%, og við forsetakjör árið 1968 vr hún 92,2%. Dræmust var kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum síðast, árið 2014 þegar hún var 66,5%.

Samfelldar heimildir um kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum eftir kyni eru ekki til fyrr en árið 1974 en frá þeim tíma hefur kosningaþátttaka kynjanna verið nokkuð jöfn. Þátttaka karla var heldur meiri á áttunda og níunda áratugnum en frá 1994 hefur þátttaka kvenna verið ívið meiri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir