Maggý og Jón Jóel með vottunarplaggið um helgina, hér við grunnbúðir fyrirtækisins á Arnarstapa.

Fyrst með gullmerki Vakans á Vesturlandi

Go West /Út og vestur er ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur nú fengið vottun Vakans, gæðakerfi ferðaþjónustunnar, um að það uppfylli efsta stig kerfisins um vistvæna ferðaþjónustu. Það eru hjónin Þuríður Maggý Magnúsdóttir og Jón Jóel Einarsson sem reka Út og vestur ehf. og eru þau að halda upp á tíu ára afmæli fyrirtækisins þetta árið. Þau hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á líkamlega hreyfingu og umhverfismál í sinni þjónustu.

„Það hefur verið mjög lærdómsríkt ferli að innleiða gæðakerfi Vakans, þ.e. að skrifa niður og skerpa á hugmyndum og framkvæmd vistvænnar ferðaþjónustu. Stór þáttur í því er að lýsa hvernig við göngum um og njótum náttúra landsins, gulleggið okkar sem við verðum að passa upp á. Ekki síður er mikilvægt að gera sér vel grein fyrir hvernig við mætum okkar áhugasömu gestum um land og þjóð. Það geta t.d. verið áleitnar spurningar um hvernig okkur Íslendingum hefur farnast í hlutverki gestgjafa upp á síðkastið,“ segir Jón Jóel.

Hann segir að uppáhaldsstaðir þeirra séu Breiðafjarðarsvæðið, Dalir og Snæfellsnes. „Þangað liggja rætur okkar. Við vitum hvað það svæði hefur að gefa, bæði fyrir líkama og sál. Við erum með aðstöðu á Arnarstapa og hefur Snæfellsjökull og þjóðgarðurinn í heild mikið aðdráttarafl í okkar þjónustu. Við bjóðum göngur á Jöklinn sem og göngu- og hjólaferðir víðar á Snæfellsnesi. Þá þekkjum við líka önnur svæði prýðilega, eins og Suð-Austurland (Skaftafell og Öræfasveit), Fjallabak (bakgarð Eyjafjallajökuls), Hornstrandir og ýmsar perlur í nágrenni Reykjavíkur. Við höfum staðið fyrir lengri og skemmri ferðum á þessum svæðum. Okkur er það sannarlega kappsmál að ferðaþjónum á Vesturlandi fjölgi í gulldeild Vakans. Því fleiri, því betra. Það mun styrkja okkur og landshlutann í heild,“ segir Jón Jóel.

Líkar þetta

Fleiri fréttir