Hér er tilkynnir lögregla Guðlaugi Magnússyni um ákvörðun lögreglustjórans. Innheimtu bílastæðagjalda var samstundis hætt.

Meint ólögmæt innheimta bílastæðagjalda stöðvuð við Hraunfossa

Lögreglustjórinn á Vesturlandi stöðvaði um nónbil í dag meinta ólögmæta innheimtu bílastæðagjalda við Hraunfossa í Borgarfirði sem hófst í gærmorgun. Það gerir lögreglustjóri að beiðni Vegagerðarinnar. Nánast á sömu mínútu og tilkynning var send út frá embættinu framfylgdi lögregla ákvörðun lögreglustjóra og stöðvaði innheimtuaðgerðir á bílastæðunum. Guðlaugur Magnússon, leigutaki jarðarhlutans og eigandi H-fossa ehf., sá sem stóð fyrir innheimtu bílastæðagjaldanna, var á staðnum ásamt starfsmanni sínum. Var innheimtan þá stöðvuð og héldu þeir á brott.

Í tilkynningu sem lögregla gaf út segir m.a.: „Gjaldtaka einkaaðila hófst í gær að nýju á vegi að Hraunfossum og Barnafossi í Hvítá í Borgarfirði en fossarnir eru friðlýstir sem náttúruvætti.“ Þá segir að Vegagerðin vísi til þess að þjóðvegir séu opnir almennri umferð skv. 1. mgr. 8. gr. vegalaga og að Vegagerðin, sem veghaldari umrædds vegar skv. 13. gr. vegalaga, hafi ekki veitt heimild til gjaldtöku fyrir notkun á þessum vegi. Vegagerðin vísar til þess að gjaldtaka, án heimildar skv. 17. gr. vegalaga, fyrir notkun vegarins feli í sér óleyfilega hindrun á umferð um þjóðveg. „Vegagerðin hefur farið þess á leit að lögreglan gefi þeim sem standa fyrir slíkri gjaldtöku af vegfarendum fyrirmæli um að láta af þeirri háttsemi og framfylgi þeim fyrirmælum.“ Loks minnir lögreglustjóri á að brot á vegalögum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varði sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir