Í undirbúningi er stærsta sjóstangveiðimót sem haldið hefur verið

Undirbúningur er nú hafinn vegna fjölmenns alþjóðlegs sjóstangveiðimóts sem haldið verður í Snæfellsbæ í lok þessa mánaðar. Það eru Íslandsdeild samtaka evrópskra sjóstangveiðimanna (EFSA) sem skipuleggur mótið sem fram fer dagana 27. maí til 1. júní. Þetta er fimmta Evrópumótið sem haldið er á Íslandi og er þetta í annað skipti sem það verður í Snæfellsbæ.

Mikill undirbúningur er fyrir mót af þessari stærðargráðu og í mörg horn að líta hjá undirbúningsnefndinni. Formaður hennar er Helgi Bergsson. Mótið mun verða það fjölmennasta sem haldið hefur verið á Íslandi og er búist við að á lokahófinu verði um 220 til 230 keppendur, skipstjórar, makar og aðrir sem tengjast mótinu. Nánast hvert gistipláss er upppantað vegna mótsins og mun það setja mikinn svip á bæinn á meðan á því stendur.

Mótið hefst sunnudaginn 27. maí með skrúðgöngu frá höfninni að Klifi þar sem mótið verður sett. Veitt verður í fjóra daga og hefur skráning á mótið verið mjög góð, en alls eru 140 keppendur skráðir til keppni og þar af níu konur. Koma tvær þeirra frá Íslandi. Keppendurnir 140 koma frá 14 löndum. Sem dæmi má nefna að keppendur koma alla leið frá Suður Afríku og Gíbraltar. Siglt verður út frá Rifi og Ólafsvík á 30 til 35 bátum. Einnig verður boðið upp á afþreyingu fyrir þá maka sem koma með. Föstudaginn 1. júní verður svo haldið lokahóf í Klifi þar sem verðlaunafhending mun fara fram ásamt því að boðið verður upp á kvöldverð í stjórn Kára Viðarssonar. Aðspurður sagði Helgi að reynt hefði verið að kaupa allt sem til þarf í keppnina í heimabyggð og mun t.d. Hraun veitingahús sjá um veitingar á lokahófinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir