Svipmynd af pallborði á fundinum í gærkvöldi í Logalandi.

Þrír sameiginlegir framboðsfundir í Borgarbyggð

Sveitarfélagið Borgarbyggð stendur í þessari viku fyrir þremur sameiginlegum framboðsfundum allra framboða sem bjóða fram til sveitarstjórnar 26. maí. Í gærkvöldi var fundur í Logalandi, þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Í kvöld  klukkan 20:30 verður fundur í Lindartungu en fimmtudaginn 17. maí verður fundur klukkan 20:30 í Hjálmakletti í Borgarnesi. Fyrirkomulag fundanna er að fulltrúar framboðanna halda samanlagt átta mínútna framsöguerindi og var dregið um röð þeirra. Fundinum stýrði Hrefna Bryndís Jónsdóttir atvinnuráðgjafi en Gunnlaugur A Júlíusson gegndi stöðu tímavarðar. Eftir framsöguerindi var fundargestum boðið að koma sér fyrir við borð, sem frambjóðendur skiptast á um að sitja við. Þannig sköpuðust fjölbreyttar umræður um ólík mál sem snerta íbúa.

Á fundinum í Logalandi var þokkaleg mæting í ljósi þess að mikill annatími er nú í sveitum landsins og margir sem ekki gefa sér tíma til fundahalda. Framboðsræður voru málefnalegar og ljóst að ekki greinir mikið milli framboða í málefnum og áherslum fyrir kosningarnar. Í Borgarbyggð bjóða fram fjórir listar; Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og óháðir og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Venju fremur hátt hlutfall frambjóðenda eru að stíga sín fyrstu skref í forustu stjórnmálanna og fyrirséð að mikil endurnýjun verður í sveitarstjórn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir