Meint ólögleg gjaldtaka hófst inn á bílastæði að Hraunfossum í morgun.

Hófu í morgun að nýju meinta ólöglega gjaldtöku á bílastæði

Leigutakar að jarðarpartinum Hraunsási II í Hálsasveit hófu í morgun að nýju að innheimta gjald fyrir að leggja bílum á bílastæði við Hraunfossa í Borgarfirði. Þessi meinta ólöglega gjaldtaka vakti mikla athygli síðastliðið sumar og aftur um haustið enda töldu allar hlutaðeigandi stofnanir; Umhverfisstofnun, Vegagerðin og sveitarfélagið Borgarbyggð, að gjaldtakan stæðist ekki lög. Eftir fjögurra daga meinta ólögmæta innheimtu bílastæðagjalda í október á síðasta ári var gjaldtakan stöðvuð af Lögreglunni á Vesturlandi enda skapaðist veruleg slysahætta þegar t.d. hópferðabílum var lagt út á þjóðvegi og fólki hleypt þar út til að ganga að fossunum.

Eigendur jarðarhlutans Hraunsáss II eru þrír þekktir fjárfestar sem víða hafa komið við í viðskiptalífinu á liðnum árum. Þetta eru þeir Lárus Blöndal hrl. og forseti ÍSÍ, Guðmundur A Birgisson sem kenndur er við Núpa í Ölfusi ásamt Aðalsteini Karlssyni. Þremenningarnir keyptu Hraunsás II fyrir nokkrum árum og liggur þessi hluti jarðarinnar að fossunum og nær m.a. yfir um 90% af núverandi bílastæðum. Fyrirtækið H-fossar ehf. leigir landið af þeim Lárusi, Guðmundi og Aðalsteini. H-fossar ehf. eru í eigu viðskiptafélaganna Guðlaugs Magnússonar og Kristjáns Guðlaugssonar sem meðal annars koma að rekstri veitingastaðarins Baulunnar í Stafholtstungum. Guðlaugur var sjálfur við Hraunfossa í morgun og stýrði innheimtuaðgerðum en tveir erlendir starfsmenn á hans vegum innheimtu bílastæðagjald af þeim sem komu á svæðið.

Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns á síðasta ári ætluðu landeigendur að hefja gjaldtökuna 1. júlí 2017 en frá því var horfið enda var og er slík innheimta talin stangast á við náttúruverndarlög. Gjaldtaka inn á friðlýst svæði krefst leyfis hlutaðeigandi stofnunar, sem er Umhverfisstofnun. Gjald fyrir bílastæði var þá frá 1500 krónum fyrir fólksbíl og upp í 6000 krónur fyrir stærri hópferðabíla.

 

„Rán um hábjartan dag“

Rekstraraðilar við Hraunfossa, þar sem m.a. er rekinn veitingastaður, eru mjög mótfallnir hinni meintu ólöglegu gjaldtöku leigjenda Hraunsáss II. Snorri Jóhannesson og hans fjölskylda byggðu veitingastaðinn upp og var hann opnaður á síðasta ári. Tilraun til gjaldtöku og umfjöllun í fjölmiðlum skaðaði starfsemi þeirra mjög á síðasta ári og óttast Snorri að áhrifin verði engu minni nú. Hann muni því gera allt sem í hans valdi standi til að stöðva ólöglega gjaldtöku. Sjálfur hefur Snorri 10% bílastæða við fossana og krefst þess að látið verði tafarlaust af því sem hann kallar rán. „Þessir menn eru beinlínis að ræna hér fólk um miðjan dag, vitandi að þeir brjóta lög með því að innheimta bílastæðagjöld. Græðgin á sér hins vegar engin takmörk og þessir menn svífast einskis,“ sagði Snorri í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir