
Flestir spá svipuðum tekjum fyrirtækja
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa gefið út í vefriti niðurstöður fyrirtækjakönnunar sem gerð var í nóvember og desember á síðasta ári. Könnunin var send um 900 fyrirtækjum sem talið er að starfi á Vesturlandi og fengust svör frá rúmlega 280. Vífill Karlsson hagfræðingur, sem hafði umsjón með gerð könnunarinnar, telur svörin sem fengust endurspegla með þokkalegum hætti afstöðu fyrirtækja á Vesturlandi til ýmissa rekstrarþátta. „Almennt séð eru fyrirtækin jákvæð en hafa samt eitt og annað að athuga við það samfélag sem þau starfa í, bæði jákvætt og neikvætt, eins og kemur m.a. fram í svörum við opnum spurningum sem spurt var.“
Í fyrsta hluta könnunarinnar er spurt um stjórnunartengda þætti svo sem afkomu, væntingar til mannaráðninga, fjárfestingar- og menntunarþörf, væntingar til efnahagsmála og breytingar í rekstri og samkeppnisumhverfi. Svör eru öll brotin niður eftir fjórum svæðum Vesturlands þar sem Akranes og Hvalfjarðarsvæðið er saman, Borgarfjörður, Snæfellsnes og loks Dalir. Þá er spurt um hindranir, kosti og galla við staðsetningu fyrirtækjanna, aðgerðir stjórnvalda og hvað vanti í umhverfið. Loks er spurt út í þjónustu Atvinnuráðgjafar Vesturlands. Í samantektinni er texta haldið í lágmarki en svörin að mestu túlkuð með myndum eða beinum tilvitnunum í svör þátttakenda.
Niðurstaða fyrirtækjakönnunar SSV er býsna viðamikil í texta en einnig myndrænni framsetningu. Er áhugasömum bent á að hægt er að kynna sér hana á vef samtakanna; ssv.is.