Bjartari tímar framundan hjá Háskólanum á Bifröst

Aðalfundur Háskólans á Bifröst fyrir árið 2017 var haldinn miðvikudaginn 9. maí síðastliðinn. Á fundinum var fjallað um skólastarfið á liðnu ári og þróun þess til næstu framtíðar. „Rekstur skólans batnaði mjög á árinu 2017 eftir þrjú erfið rekstrarár. Skólinn skilaði 34 milljóna kr. hagnaði en þar af var söluhagnaður eigna 21,5 milljón. Á árinu 2016 var 49,5 milljóna kr. tap á rekstrinum.  Meginástæður bættrar afkomu voru hækkað framlag ríkisins til skólans og lækkun á launakostnaði. Þá voru eignir tveggja íbúðafélaga af þremur seldar á árinu,“ segir í tilkynningu.

Nemendur í Háskólanum á Bifröst voru 842 á árinu 2017. Þar af útskrifuðust 292 en nýnemar voru 455. Fjarnám verður sífellt fyrirferðarmeira í skólastarfinu. 85% nemenda í háskóladeildum eru í fjarnámi og 84% nemenda í Háskólagátt. Eins og fram hefur komið er Háskólinn á Bifröst í fararbroddi í fjarnámi meðal íslenskra háskóla.

Á fundinum fóru Vilhjálmur Egilsson rektor og Hafsteinn Sæmundsson fjármálastjóri yfir stöðu skólans, fjármál og eignasölu liðins árs. Eignir tveggja íbúðafélaga, hluti skólahúsnæðis og rekstur hótels var selt á árinu sem er hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu íbúðafélaga á Bifröst. „Stofnun sem nær 100 ára aldri, eins og Háskólinn á Bifröst fagnar á þessu ári, þarf sífellt að aðlagast breyttu samfélagi og þörfum fyrir menntun. Skólastarfið á Bifröst er því í sífelldri þróun og á árinu 2017 var bryddað upp á nokkrum nýjungum, fyrst og fremst í meistaranáminu. Háskólinn á Bifröst er vel í stakk búinn að takast á við fyrirsjáanlegar breytingar í íslensku samfélagi. Háskólar munu í framtíðinni þurfa að þjóna vel fólki á öllum aldri sem jafnframt er á vinnumarkaði. Með uppbyggingu fjarnáms og sveigjanleika til að stunda nám með vinnu býður skólinn upp á tækifæri fyrir fólk til að auka þekkingu sína og getu til að láta til sín taka í atvinnulífinu og samfélaginu,“ segir í tilkynningu í tengslum við aðalfund Háskólans á Bifröst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir