Undir yfirborðinu er mynd sem fjallar um sjókvíaeldi

Undir yfirborðinu nefnist ný íslensk heimildamynd um sjókvíaeldi á laxi hér á landi og víðar í heiminum. Myndin verður sýnd í Ríkissjónvarpinu sunnudaginn 13. maí kl. 20.15. Í henni er fjallað um mengun af sjókvíaeldi og hættuna á erfðablöndun við villtu íslensku laxastofnana. „Þetta snýst fyrst og fremst um náttúru Íslands,“ segir leikstjórinn Þorsteinn J. „Það er í rauninni enginn á móti laxeldi heldur þeirri aðferð sem notuð er við eldið. Sjókvíaeldi á laxi er mengandi iðnaður, vegna þess að fóðrið og úrgangurinn úr fiskinum safnast saman undir kvíunum. Það er einnig stórkostleg ógn við íslenska náttúru að ala frjóan norskan fisk í kvíunum. Erfðanefnd landbúnaðarins vill til að mynda stöðva allt sjókvíaeldi á laxi í fjörðum við Ísland af þessum sökum,“ segir leikstjórinn.

Um 1500 eigendur búajarða á Ísland eiga lax- og silungsveiðirétt. „Guðrún Sigurjónsdóttir bóndi á Glitstöðum í Norðurárdal er jafnframt formaður veiðifélags Norðurár. Hún bendir á þetta í viðtali í myndinni. Það er ótrúlegt að það skuli ekki verið haft neitt samráð við allt þetta fólk, sem á mikla hagsmuni af því að villtir laxastofnar verði ekki fyrir tjóni. Veiðiréttur er stór hluti af tekjum bænda á Íslandi og ekkert einkamál stórfyrirtækja að stefna afkomu þeirra í hættu með eldi á frjóum norskum laxi í sjókvíum,“ segir Þorsteinn J.

Í myndinni er einnig fjallað um reynslu annarra þjóða af sjókvíaeldi; í Noregi, Skotlandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum. „Það er mikilvægt fyrir okkur að sjá stóru myndina í þessu máli. Reynsla annarra þjóða af sjókvíaeldi er alls ekki góð, tveir þriðju af villta laxastofninum hefur orðið fyrir varanlegum skaða og í Seattle í Bandaríkjunum sluppu yfir 200.000 laxar úr sjókví sem hrundi saman á síðasta ári. Meira að segja norsku fyrirtækin sem eiga í laxeldisfyrirtækjunum á Íslandi eru að skoða aðrar leiðir en sjókvíaeldi þar sem öllum er ljóst að þessi aðferð er ógn við náttúruna. Þess vegna held ég að myndin sé mikilvægt innlegg í þessa umræðu, Íslendingar hafa ennþá möguleika á að endurtaka ekki mistök annarra þjóða með skelfilegum afleiðingum,“ segir leikstjórinn Þorsteinn J.

mm

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir