Aðalkröfur ríkisins um þjóðlendur eru merktar með rauðum útlínum á kortinu. Óbyggðanefnd samþykkti aðeins brot af kröfunum.

Stærstum hluta þjóðlendukrafna í Dölum hafnað

Óbyggðanefnd kvað í síðustu viku upp úrskurði vegna krafna Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, um þjóðlendur á svæði 9A, sem nær yfir Dalasýslu að undanskildum fyrrum Skógarstrandarhreppi.

Þjóðlendukröfur í Dölum náðu til Svínadals, Flekkudals, Vatnsþverdals, fjalllendi Skarðs í Haukadal, Stóra-Vatnshornsmúla, Jörfaafréttar, landsvæðis sunnan og vestan Villingadalsdraga, Geldingadals, Sauðafellslands, landsvæðis sunnan Hundadals og Hundadalsheiði, fjalllendis Fremri-Vífilsdals, fjalllendis Hrafnabjarga og Botns við Svínbjúg. Var kröfunum skipt upp í þrjú mál eftir svæðum. Ítarlega lýsingu krafna og yfirlitskort af hverju svæði fyrir sig er að finna á vefsíðunni obyggdanefnd.is.

Skemmst er frá því að segja að óbyggðanefnd hafnaði þjóðlendukröfunum að langstærstum hluta. Landsvæðið vestan Skothryggs telst þjóðlenda samkvæmt úrskurði nefndarinnar, en þar er aðeins um að ræða lítinn hluta þess lands Flekkudals sem aðalkrafa ríkisins um þjóðlendu náði til. Stóra-Vatnshornsmúli telst einnig þjóðlenda samkvæmt úrskurði nefndarinnar, en landsvæði er í afréttareigu eigenda jarðarinnar Stóra-Vatnshorns samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Sama gildir um Jörfaafrétt, sem nefndin úrskurðaði að væri þjóðlenda, en í afréttareign eigenda jarðarinnar Jörfa.

Að lokum úrskurðaði nefndin að vesturhluti Víðimúla teldist þjóðlenda. Er það aðeins lítill hluti af því fjalllendi Hrafnabjarga sem gerð var krafa um. Sama landsvæði er í afréttareign eigenda jarðanna Ytri-Hrafnabjarga og Fremri-Hrafnabjarga skv. úrskurði óbyggðanefndar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir