
Smiðjuloftið opnað á Akranesi
Margt var um manninn við opnun Smiðjuloftsins, nýju afþreyingarsetri við Smiðjuvelli á Akranesi, um liðna helgi. Það eru hjónin Valgerður Jónsdóttir og Þórður Sævarsson sem eiga og reka Smiðjuloftið en þar er að finna klifuraðstöðu og rými sem m.a. hentar undir ýmsa viðburði eða tónlistariðkun. „Nóg var um að vera á Smiðjuloftinu í tilefni af opnuninni og margt um manninn alla helgina. Á laugardeginum var opið hús á efri hæðinni, lifandi tónlist og léttar veitingar. Á sunnudeginum var svo fjölskylduklifur og söngstund, þar sem litlir söngfuglar létu ljós sitt skína. Mikill fjöldi fólks á öllum aldri mætti á Smiðjuloftið báða dagana til að prófa klifurveggina og voru gestir gífurlega ánægðir með þessa nýjung í íþrótta- og menningarlífinu á Akranesi,“ segja þau Valgerður og Þórður.
Klifurfélag ÍA verður með æfingaaðstöðu sína í húsinu og spenningur var meðal iðkenda í félaginu að hefja æfingar. Leyndi sá áhugi sér ekki þegar ljósmyndari Skessuhorns leit við á laugardaginn. Margir þeirra voru mættir á Smiðjuloftið strax og tekið var úr lás á laugardagsmorguninn, að sögn þeirra Valgerðar og Þórðar.