Skipulagsnefnd samþykkti auglýsingu umdeilds máls

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar hefur samþykkt fyrir sitt leyti til að setja í auglýsingaferli tillögur að breytingu á deiliskipulagi og aðalskipulagi Borgarbyggðar sem gerir ráð fyrir að heimila skotæfingasvæði í landi Hamars, ofan við Borgarnes. Mál þetta hefur verið afar umdeilt á liðnum árum. Meðal annars mótmæltu 123 einstaklingar skipulagslýsingu með formlegum hætti. Við afgreiðslu í nefndinni síðastliðinn miðvikudag voru nefndarmennirnir Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir (V) og María Júlía Jónsdóttir (S) fylgjandi því að afgreiða málið til auglýsinga, en Björk Jóhannsdóttir (S) greiddi atkvæði gegn tillögunni. Athygli vekur að bæði aðal- og varafulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í nefndinni mættu ekki á fundinn. Hann sátu því tveir fulltrúar Samfylkingar í nefndinni og einn fulltrúi VG.

Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir að breyta landnotkun 16,7 ha svæðis í landi Hamars úr landbúnaði í Opið svæði til sérstakra nota. Gert er ráð fyrir sjö bílastæðum, félagshúsi, skeetvelli, riffilbraut og göngustíg frá bílastæði að skeetvelli og meðfram riffilbraut. Þá verður ný reið- og gönguleið lögð 400 m sunnan við væntanlegt skotæfingasvæði. Nýr aðkomuvegur verður lagður að svæðinu, frá Bjarnhólum sunnan efnistökusvæðis og verður samnýttir með núverandi reið- og gönguleið. Þá segir í afgreiðslu nefndarinnar að breytingin sé ekki háð umhverfismati skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þá samþykkti nefndin með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Bjarkar að breytingu á aðalalskipulag vegna málsins. Endanlegri afgreiðslu málsins er vísað til sveitarstjórnar, en síðasti fundur sveitarstjórnar fyrir kosningar verður næstkomandi mánudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir