Leikskólabörn á Akranesi fyrr í vor. Ljósm. úr safni.

Fjárhagur Akraneskaupstaðar sterkur í samanburði stærstu sveitarfélaga

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman upplýsingar um rekstur og efnahag tólf stærstu sveitarfélaga landsins. Greiningin nefnist; „Betur má ef duga skal“ og vísar í fremur dapurlega niðurstöðu á rekstri og ekki síst er skuldsetning sveitarfélaga sem gerir fjárhagslegt svigrúm þeirra erfitt. Þá kemur fram að þau sveitarfélög sem koma best út úr þeim samanburði taka hlutfallslega minnst til sín í formi skattheimtu. Þá mælist ánægja íbúa með leik- og grunnskóla mest í þeim sveitarfélögum sem koma best út úr rekstrarsamanburðinum. Það eru Akraneskaupstaður, Seltjarnarnes og Garðabær sem koma best út þegar fjárhagsstaða sveitarfélaganna er borin saman, en Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður verst. Seltjarnarnes, Garðabær og Vestmannaeyjar innheimta hlutfallslega lægstu skattana af meðaltekjum íbúa sinna á sama tíma og Akureyri, Fjarðabyggð og Reykjavík taka hlutfallslega mest til sín.

 

Hagkvæmt að búa í vel reknum sveitarfélögum

Áhugaverður mælikvarði á skattheimtu er að bera saman hvernig skattar og önnur gjöld leggjast á sama einstaklinginn eftir því hvar hann væri búsettur. Miðað við þennan mælikvarða er ódýrast að búa í Garðabæ en dýrast að búa í Árborg. Mismunurinn ríflega 180 þúsund krónur á ári milli þessara tveggja sveitarfélaga. Mikil fylgni er á milli fjárhagsstöðu sveitarfélaga og skattlagningar. Með öðrum orðum er hagkvæmast að búa í vel reknum sveitarfélögum. Auðvitað er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélög njóta góðs af því ef meðaltekjur íbúa eru háar en að sama skapi má segja að þar sem skattheimta er lágt hlutfall meðaltekna hafi sveitarstjórnir staðist ákveðna freistingu. Þær hefðu getað hækkað skatta til jafns við önnur sveitarfélög og aukið þannig álögur á íbúa. Niðurstaðan er því sú að ódýrast er að búa á Akranesi með tilliti til skatta og gjalda. Einnig mælist ánægja íbúa með leik- og grunnskóla mest í þeim sveitarfélögum sem koma best út úr rekstrarsamanburðinum og er Akranes þar í þriðja sæti á landsvísu og í öðru sæti á landinu hvað varðar ánægju íbúa.

 

Ábyrgðarhluti að styrkja ekki fjárhagsstöðuna

Í lokaorðum skýrslu SA er brýnt fyrir sveitarstjórnarfólki að greiða niður skuldir. Þar segir: „Það veldur vonbrigðum að ekki hafi verið meiri afgangur af rekstri sveitarfélaganna til að greiða hraðar niður skuldir í þessari miklu efnahagsuppsveiflu og einna lengsta samfellda hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Lukkan getur snúist skyndilega og er því ábyrgðarhluti að nýta góða tíma til að styrkja fjárhagsgrundvöll sveitarfélaga.“

 

Fagnar niðurstöðunni

„Við fögnum gríðarlega að sjá svona samanburð sem veitir okkur staðfestingu um það sem er í gangi í okkar samfélagi. Undanfarið hefur átt sér stað mikil uppbygging á Akranesi, íbúum hefur fjölgað meira en áætlanir gerðu ráð fyrir um og hefur þjónustustig bæjarins haldist, ef ekki gott betur,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir