Svipmynd frá heimsókn Háskólalestarinnar í Stykkishólm fyrir tveimur árum. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Háskólalestin heldur vísindaveislu í Hjálmakletti

Háskólalest Háskóla Íslands er nú á ferð um landið og heimsækir fjögur sveitarfélög á landsbyggðinni. Föstudaginn og laugardaginn 11. og 12. maí verður lestin í Borgarnesi og verður nemendum í 8.-10. bekk boðið upp á fróðleg og skemmtileg námskeið. Á föstudeginum munu kennarar í Háskólalestinni taka að sér kennslu í efri bekkjum grunnskólans. Á laugardeginum verður haldin vísindaveisla í Hjálmakletti þar sem öllum heimamönnum er boðið að spreyta sig á alls kyns þrautum, tækjum og tólum. Meðal þess sem boðið verður upp á eru óvæntar uppgötvanir, undraheimar Japans, vindmyllusmíði, leikur með ljós og hljóð, furðulegar fornleifar og margt fleira.

Er þetta áttunda árið í röð sem Háskólalestin brunar um landið en lestin fór í sína fyrstu ferð á aldarafmælisári Háskóla íslands árið 2011. Hún hefur heimsótt á fjórða tug sveitarfélaga um allt land og boðið upp á lifandi og skemmtilega vísindamiðlun fyrir alla aldurshópa. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Háskólalestarinnar: http://haskolalestin.hi.is og í auglýsingu í Skessuhorni í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir