VR sendir forstjóra Hörpu skýr skilaboð

„Í ljósi yfirlýsingar forstjóra Hörpu í dag 8. maí, hefur VR ákveðið að hætta að nota Hörpu tónlistarhús undir viðburði félagsins. Sóma síns vegna getur VR ekki átt í viðskiptatengslum við fyrirtæki sem hagar sér með svo lítilmannlegum hætti gagnvart launafólki,“ segir í tilkynningu frá VR. „Lægst launuðu starfsmenn Hörpu tónlistarhúss, sem einum var gert að taka á sig launalækkun á meðan forstjórinn fékk ríflega launahækkun, sýndu það einstaka þor og áræði að segja nær öll upp störfum til þess að mótmæla hinu hrópandi óréttlæti sem blasir við í þessu máli. Beðið var með eftirvæntingu eftir niðurstöðu fundar forstjóra og yfirstjórnar í morgun og blasti það við öllu réttsýnu fólki að hið augljósa óréttlæti yrði leiðrétt með einhverjum hætti og yfirstjórn hússins myndi sjá að sér.“

Þá segir að yfirlýsing Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu tónlistarhúss, í dag þriðjudaginn 8. maí 2018 komi sem blaut tuska í andlit félagsmanna VR. „Einu viðbrögðin eru þau að kveðja þessa dugmiklu starfsmenn og óska þeim velfarnaðar. VR sem stéttarfélag getur ekki annað en tekið sér stöðu með starfsmönnum sem hafa verið smánaðir með þessum ótrúlega hætti og hætt öllum viðskiptum við Hörpu tónlistarhús þar til þetta mál fær eðlilega afgreiðslu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir