Kolbrún stefnir að því að fá sveinsprófið í rennismíði. Áður en hún prófaði iðnnám fannst henni konur þurfa að vera kvenskörungar til að mega vera í náminu. Ljósm. klj.

Segir iðnnám vera fyrir alla

Kolbrún Ósk Kolbeinsdóttir söðlaði um; fór úr bóknámi, í vélvirkjun og loks í rennismíði. Hún segist stefnulaust hafa skráð sig í framhaldsskóla í bóklegt nám. Án þess að vita hvað hún ætti að gera í framtíðinni. Hún og yngri systir hennar ákváðu síðan að fara saman að læra vélvirkjun, fag sem karlar hafa frekar sótt í hingað til. „Mér fannst gott að hugsa til þess að við værum þá allavega tvær stelpur þarna. Saman,“ segir Kolbrún sem segist vera Akurnesingur. Hún er þó fædd í Eþíópíu, þar sem hún bjó fyrstu mánuði lífsins. „Mamma og pabbi fluttu út til Eþíópíu með skiltafyrirtæki sem þau voru með á þessum tíma. En eftir að ég fæddist fór mamma heim og þau skildu.“ Þá lá leiðin á Akranes, með stuttu stoppi í Rifi á Snæfellsnesi, og allt frá leikskólaaldri hefur Kolbrún búið á Akranesi. „En pabbi varð eftir í Eþíópíu,“ segir Kolbrún og brosir og bætir við að hún sé töluvert rótfastari en blóðfaðir hennar. Hann hafi flakkað örlítið eftir Eþíópíu en búi núna á Íslandi.

 

Ekki bara fyrir kvenskörunga og karla

Fósturpabbi Kolbrúnar er vélvirki. „Hann þrýsti samt ekki á mig og systur mína að fara í iðnnám. Ég ólst upp við að sjá hann vera að smíða og svona í bílskúrnum. Það eina sem hann kenndi mér samt var að skipta um dekk á bílnum mínum og svona.“ Systurnar höfðu samantekin ráð um vélvirkjanámið þegar Kolbrún var búin að reyna við bóknám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún fann sig ekki í því og var farin að velta fyrir hvert hún ætti að stefna í lífinu. „Við héldum að við gætum ekki lært þetta,“ segir Kolbrún sem er hæglát og ögn feimnisleg. „Við héldum að maður þyrfti að vera algjör kvenskörungur til að fara í iðnnám. En það er ekkert rétt! Þetta er fyrir alla.“

Þær systur fóru saman í vélvirkjun haustið 2014 og byrjuðu námið í grunndeild málmiðna við FVA. Saman ætluðu þær að sækja styrk í veru hvorrar annarrar í deildinni. „Við ákveðum að fara í þetta saman af því við þorðum ekki að fara í iðnnám og vera eina stelpan.“ Haustið 2014 vildi þó svo til meirihluti nemenda í grunndeild málmiðnaðar voru stelpur, sem er mjög sjaldgæft. „Við vorum alveg fimm stelpur samtals í þessum hópi. Það voru fleiri stelpur en strákar.“

 

Skapandi rennismíði

Þótt vélvirkjun hafi verið skemmtilegt nám og Kolbrún hafi fengið að reyna sig á atvinnumarkaðnum sem vélvirkjanemi á vélaverkstæði Norðuráls, þá fann hún fljótt að vélvirkjun var ekki rétti staðurinn fyrir hana. „Viðhorfið sem við fengum var mjög jákvætt,“ segir Kolbrún og slæmt viðhorf hafi ekki verið ástæðan fyrir því að hún sótti á önnur mið. „Ég áttaði mig bara á því að vélvirkjun var ekki fyrir mig.“ Málmvinnan hafi höfðað til hennar og hana langaði að halda áfram á þeirri braut. „Mér finnst gaman að smíða úr málmi og ákvað að klára síðasta árið í rennismíði í Borgarholtsskóla.“ Hún segir rennismíðina vera skapandi og skemmtilega.

 

Kasólétt á lokametrunum

Kolbrún kynntist manninum sínum í skautsmiðjunni í Norðuráli þegar þau unnu þar bæði eitt sumarið. „Við giftumst svo og ákveðum að eignast börn,“ segir Kolbrún sem á rétt tæplega árs gamla dóttur sem er alnafna móður hennar. „Ég náði ekki að klára sveinsprófið í rennismíði þar sem ég kláraði seinustu önnina kasólétt og fór beint í fæðingarorlof.“ Þau hjónin byrjuðu í iðnnámi á sama tíma. „Ég hvatti hann til að klára eitthvað meira, hann var bara með stúdentspróf í félagsfræði.“ Hann klárar sveinsprófið í rafvirkjun í sumar.

Kolbrún var kasólétt þegar hún kláraði iðnnámið í Borgarholtsskóla. „Ég átti mjög góða meðgöngu og gat mætt í allt í skólanum.“ Dóttirin fæddist í miðri prófatörn. „Ég man að 2. maí, daginn áður en stelpan mín fæðist, þá var ég í skólanum að klára próf.“ Síðasta prófið hafi verið 4. maí. „En ég fékk að klára síðasta prófið heima,“ segir hún og bætir við að kennararnir hafi sýnt aðstæðum hennar mjög mikinn skilning.

 

Spennt fyrir framhaldinu

Kolbrún ætlar að klára sveinsprófið eins fljótt og hún getur. Hún er þó ekki enn komin með daggæslu fyrir dótturina, en það kemur ekki að sök þar sem maðurinn hennar á enn þrjá mánuði eftir í fæðingarorlofi. „Ég verð því að vinna á meðan pabbi hennar verður með hana heima.“ Kolbrún fékk vinnu sem rennismiður hjá Skaganum 3X á Akranesi og hlakkar til að hefja störf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir