Nýtt upphaf er nauðsyn fyrir samfélagssátt

„Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi leggur þunga áherslu á tafarlausar umbætur í samgöngumálum. Kjördæmið situr eftir að þessu leyti og umferðaþungir vegakaflar eru orðnir lífshættulegir eins og dæmin sanna. Hefja þarf framkvæmdir þegar á þessu ári við endurgerð vegakaflans um Kjalarnes að Borgarfjarðarbrú. Þá er þjóðarskömm að enn skuli ekki vera hafnar framkvæmdir í Gufudalssveit eftir nær tuttugu ára þref. Krafan er sú að löggjafinn beiti sér skv. því frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi ef ekki næst önnur niðurstaða á næstu mánuðum. Einnig er brýnt að staðið verði við samning um að gjaldtöku í Hvalfjarðargöng verði aflétt á árinu,“ segir í stjórnmálaályktun kjördæmisráðs Samfylkingarinnar.

Þá segir að full ástæða sé til að fagna því að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng eru hafnar. Þar með hillir undir langþráð markmið um samtengingu norður- og suðurhluta Vestfjarða. Framkvæmdir við Dynjandisheiði hefjist nú þegar þannig að nýr vegur verði tilbúinn þegar gerð Dýrafjarðarganga er lokið.

„Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að staðið verði við þau fyrirheit að endurreisn velferðarkerfisins skuli vera algjört forgangmál. Þess sjást lítil merki í áherslum núverandi ríkisstjórnar. Í því sambandi er brýnt að tryggja samfélagslegan arð af auðlindum landsins til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Margvíslegar úttektir leiða í ljós að ójöfnuður eykst og eignir og fjármunir færast á stöðugt færri hendur á meðan stórir hópar í samfélaginu ná ekki endum saman. Það er krafa Samfylkingarinnar að þessu linni og snúið verði af braut sérhagsmunagæslu.

Tryggja þarf eftir megni jöfn tækifæri fólks, hvar sem er á landinu, til framfærslu, menntunar, grunnþjónustu, atvinnuþátttöku og samfélagslegrar virkni. Stefnt skal að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.

Mikilvægt er að á Íslandi fái þrifist öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem er undirstaða þess að fólk geti haft lífsviðurværi á landsbyggðinni. Til að halda landinu öllu í byggð þarf að styrkja dreifikerfi rafmagns. Nauðsynlegt er að þrýsta á stjórnvöld um að hraða lagningu þriggja fasa rafmagns og ljósleiðara, en það skiptir mörg fyrirtæki og landbúnað í kjördæminu gríðarlega miklu máli.

Fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna fyrir árin 2019 – 2023 staðfestir að engra breytinga er að vænta varðandi fólk sem höllustum fæti stendur í samfélaginu og við það verður ekki unað. Ekkert átak í húsnæðismálum er í augsýn eða  umbætur í skattamálum sem miða að því m.a. að burðugar atvinnugreinar leggi aukinn skerf til samfélagslegra verkefna, heldur þvert á móti.

Krafan um lýðræðisumbætur og auðlindir í þjóðareigu með nýrri stjórnarskrá er enn í fullu gildi.  Gera þarf breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum leikreglum sem nýtast samfélaginu og atvinnugreininni. Sjálfbærni og virðing fyrir náttúru og umhverfi eiga að vera forsenda við nýtingu auðlinda landsins og grundvöllur heildstæðrar auðlindastefnu.

Réttlæti, sanngirni, trúverðugleiki og heilindi eru forsenda heilbrigðra stjórnarhátta. Jafnaðarmenn eiga nú að fylkja sér um velferðina, samneysluna og ábyrgð í stjórnmálum undir merkjum Samfylkingarinnar.“

mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir