Sendir áskorun til Betri byggðar í Eyja- og Miklaholtshreppi

Gísli Guðmundsson í Hömluholti í Eyja- og Miklaholtshreppi sendi í gær áskorun til þeirra sem skipa H-lista Betri byggðar í hreppnum um að draga framboðið til baka. Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í gær var einungis einum framboðslista skilað inn í gær fyrir lögbundinn lokafresta. Áskorun Gísla er þessi:

„Ágætu félagar og sveitungar sem standa að framboði H-listans – Betri byggð – fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Eyja- og Miklaholtshreppi, þann 26. maí 2018.

Þar sem ljóst er að ekki hefur komið fram annað framboð til sveitarstjórnar skora ég á ykkur ágætu sveitungar að draga framboð ykkar til baka. Takið ekki kosningaréttinn af íbúunum – leyfið okkar fáu íbúum að nýta einn helgasta rétt hvers íbúa í lýðræðisríki – réttinn til að kjósa. Vinnum saman að því að gera gott sveitafélag betra og eigum samtal okkar á milli frekar en að vera með sjálfkjörna, umboðslausa sveitarstjórn. Í svo fámennu sveitarfélagi verðum við að axla ábyrgð og vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum. Kosningar, í svo fámennu sveitarfélagi, byggðar á listum og/eða sjálfkjörinni sveitarstjórn stuðlar að sundrungu innansveitar sem við megum ekki við.

Góðir sveitungar! Ég vek athygli ykkar á eftirfarandi grein eftir Svavar Garðarsson sem birtist í Skessurhorni þann 25/4 2018. Ég trúi ekki að þið ágæta fólk á H-lista – Betri byggð – vilji láta það um ykkar spyrjast að fremja VALDARÁN í okkar sveit á árinu 2018.

Virðingarfyllst,

Gísli Guðmundsson, Hömluholti.“

 

Grein Svavars Garðarsson má lesa hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir