Önnur áskorun til H-lista Betri byggðar

Sigurbjörg Ottesen á Hjarðarfelli hefur beðið um að eftirfarandi áskorun verði birt, en henni er beint til fulltrúa H-lista í Eyja- og Miklaholtshreppi:

„Sæl verið þið kæru sveitungar!

Mér þykir miður það ástand sem að upp virðist komið hér í Eyja- og Miklaholtshreppi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Það að lýðræði mitt og fjölmargra sveitunga minna virðist að engu virt þykir mér afar miður, með framboði eins lista til sveitarstjórnar. Því skora ég á framboð H – listans, Betri byggð, að draga framboð sitt til baka og lofa okkur sveitungum ykkar, frambjóðenda listans, að nýta atkvæðisrétt okkar í persónukjöri. Ég bara vil ekki trúa öðru en að innan sveitarfélagsins finnist hæft fólk til að stýra því og sinna hagsmunagæslu, án þess að fólk dragi sig í dilka.

Hver manneskja hér innan sveitar sem utan má vita það að hart var að mér sótt að taka sæti á lista þeim sem að nú hefur einn tilkynnt framboð sitt, til þessarar “rússnesku kosningar” eins og ég vil kalla hana og hangir nú yfir okkur. Eins mega allir vita að ég hafði ekki áhuga á að þiggja það sæti, því að persónulega þykja mér listakosningar ekki boðlegar í sveitarfélagi af þeirri stærðargráðu sem að við búum í. Þó að ég hafi ekki haft áhuga á sæti á listanum þá er ekki þar með sagt að ég hafi ekki áhuga á sveitarstjórnarmálum, síður en svo. Ég vil hag okkar sveitunganna sem bestan og númer eitt, tvö og þrjú hag barnanna í sveitarfélaginu og skólamál hér innansveitar eru mér afar hugleikin. Þá tel ég einnig mikilvægt að við hlúum vel að fullorðna fólkinu í samfélaginu.
Það er mitt hjartans mál að gera gott samfélag enn betra, því jú hvar værum við án hvers annars?

Því skora ég enn og aftur á frambjóðendur H – listans að draga framboð sitt til baka og lofa okkur kjósendum að nýta atkvæðisrétt okkar þann 26. maí n.k. en ekki þröngva uppá okkur sveitungana umboðslausri, sjálfkjörinni stjórn.

Virðingarfyllst,
Sigurbjörg Ottesen
Hjarðarfelli.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir