Telur sýslumann brjóta jafnræðisregluna gagnvart Grundfirðingum

Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri í Grundarfirði hefur sent sýslumanninum á Vesturlandi kröftuga athugasemd vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að íbúar í Grundarfirði geti kosið utan kjörfundar í heimabyggð í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 26. maí nk. Hefur hann ritað sýslumanni bréf þar sem farið er þess á leit að bætt verði snarlega úr. Þá hefur dómsmálaráðuneytinu einnig verið ritað bréf varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Grundarfirði. Frá þessu greinir bæjarstjóri á vefsíðu Grundarfjarðarbæjar. Samkvæmt auglýsingu sýslumanns er kosning utan kjörfundar hafin. Hægt er að kjósa á sex stöðum á Vesturlandi, þ.e. á Akranesi, í Borgarnesi, Búðardal, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsbæ og Stykkishólmi. Þorsteinn greinir frá því að í svörum sínum vísi sýslumaðurinn til reglugerðar nr. 1151/2014 um sýslumannsumdæmi.

„Á undanförnum árum hafa Grundfirðingar þurft að berjast fyrir rétti sínum til þess að kjósa utan kjörfundar í heimabyggð. Í komandi kosningum endurtekur sagan sig. Jafnræðisreglan virðist því ekki í heiðri höfð hvað þessi mál varðar. Erindum til sýslumannsins og dómsmálaráðuneytisins verður fylgt eftir og reynt að fá lausn í málið. Vonast er til að slík lausn finnist eins og raunin hefur verið undanfarnar kosningar,“ skrifar Þorsteinn Steinsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir