Einn listi barst í Eyja- og Miklaholtshreppi

Einn framboðslisti barst kjörstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps fyrir lögbundinn lokafrest til að skila inn framboðum á hádegi í dag. Það var H-listi Betri byggðar, en oddviti hans er Eggert Kjartansson núverandi oddviti í sveitarfélaginu. Halldór K Jónsson formaður kjörstjórnar staðfestir þetta í samtali við Skessuhorn. Samkvæmt kosningalögum er nú gefinn 48 tíma frestur til að skila inn öðrum framboðslista/um og rennur sá frestur því út á hádegi á mánudaginn. Að sögn Halldórs verður tilkynning um þessa stöðu send út á póstlista til íbúa í sveitarfélaginu og á heimasíðu Eyja- og Miklaholtshrepps.

Komi sú staða upp að ekki berist annar listi fyrir viðbótarfrest verður H-listi sjálfkjörinn, nema fulltrúar á honum kjósi að draga framboð sitt til baka þannig að kosið yrði eftir persónukjöri 26. maí næskomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir