Uppfylling í Krókalóni var samkvæmt skipulagi

Akraneskaupstaður birtir í dag tilkynningu á upplýsingavef bæjarins þar sem ákveðnar rangfærslur eru leiðréttar, eins og það er orðað, vegna umfangs landfyllingar við Krókalón. „Landfylling í Krókalóni frá árinu 2012 er í samræmi við aðal- og deiliskipulag,“ segir í frétt Akraneskaupstaðar. Þá segir: „Á almennum íbúafundi sem haldin var í Grundaskóla miðvikudaginn 2. maí síðastliðinn komu fram fullyrðingar af hálfu Guðmundar Páls Jónssonar fyrrverandi formanns bæjarráðs og bæjarstjóra, Sveins Kristinssonar fyrrverandi forseta bæjarstjórnar og Jóhanns Ársælssonar fyrrverandi bæjarfulltrúa um að landfylling sem nú þegar hefur verið gerð til að stækka athafnasvæði Skagans 3X hefði orðið 7000 fermetrar í stað 2000 fermetra. Framangreind fullyrðing er endurtekin í viðtali við Svein Kristinsson í Morgunblaðinu í dag,“ segir í tilkynningunni.

Akraneskaupstaður leitaði til Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssonar og félaga sem var með skipulagsvinnu á landsvæði Grenja og bar undir þá ofangreindar fullyrðingar. „Í svari Teiknistofu Arkitekta kemur fram það álit að landfylling sé innan skipulagsmarka samanber upplýsingar í meðfylgjandi yfirliti stofunnar. Jafnframt hefur stofan staðfest að framkvæmdin er í algeru samræmi við hönnun Siglingastofnunar, sbr. meðfylgjandi loftmyndir.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir