Að lokinn skóflustungu var tími fyrir myndatöku. F.v. Guðrún Sigurjónsdóttir stjórnarformaður KB, Eiríkur J Ingólfsson byggingaverktaki, Margrét Guðnadóttir verslunarstjóri og Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri.

Þúsund fermetra þjónustuhús byggt við brúarsporðinn

Síðastliðinn föstudag var tekin fyrsta skóflustunga að þúsund fermetra þjónustumiðstöð í Borgarnesi þar sem fyrirhugað er að verði til húsa verslanir og veitingahús. Húsið verður reist á lóðinni Digranesgötu 4, á milli húsa Bónuss og Arionbanka næst þjóðveginum þegar ekið er inn í bæinn að sunnan. Það er Borgarland ehf. sem byggir með tilstyrk Kaupfélags Borgarfirðinga en kaupfélagið á eins og kunnugt er allt hlutafé í fyrirtækinu. Í máli Guðsteins Einarssonar kaupfélagsstjóra og framkvæmdastjóra Borgarlands kom fram að þetta verkefni markaði tímamót því það verður fyrsta stóra framkvæmdin sem félögin ráðast í eftir hrun. Húsin á lóðinni verða tvö. Í þessum fyrri áfanga verður stærra húsið byggt, en það verður rúmir þúsund fermetrar. Seinna húsið verður um 700 fermetrar. Lóðaframvæmdir fara þó fram í þessum áfanga vegna beggja húsanna.

Jarðvegsframkvæmdir og byggingin sjálf verður alfarið í höndum heimafólks. Borgarverk annast alla jarðvinnu og lóðafrágang, Trésmiðja Eiríks J Ingólfssonar er aðalverktaki við bygginguna en einingar í húsið koma frá Límtré Vírneti. Reist verður límtréshús og eru áætluð verklok 1. mars 2019. Þá á húsið að vera nánast fullbúið til þeirrar starfsemi sem í því verður. Samkvæmt arkitektateikningum verður stór veitingastaður í húsinu sem og verslun ásamt rúmgóðri hreinlætisaðstöðu. Guðsteinn sagði í samtali við Skessuhorn að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun ferðafólks á Vesturlandi, og ekki hvað síst í Borgarnesi, hafi til þess að gera lítið bæst við af þjónusturými á liðnum árum. „Við sjáum sóknarfæri í þessari gegnumstreymis þjónustu og staðsetning verslunar og veitingasölu á þessum stað styrki þá trú okkar að fjárfestingin verði góð. Við ætlum engu að síður að leggja áherslu á að byggja hagkvæmt. Húsið verður á einni hæð og aðgengi verður eins og best verður á kosið,“ segir Guðsteinn. Hönnuður hússins er Batteríið, en um verkfræðihönnun sá Verkís.

Líkar þetta

Fleiri fréttir