Kammerkór Norðurlands syngur á Akranesi

Kammerkór Norðurlands heldur tónleika á Akranesi næstkomandi sunnudag, 6. maí. Tónleikarnir fara fram í safnaðarheimilinu Vinaminni. Stjórnandi kórsins er Guðmundur Óli Gunnarsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi. Hann segir Kammerkór Norðurlands um margt óvenjulegan kór. „Hann hefur verið starfandi síðan 1998 en ég hef verið stjórnandi síðan árið 2000. Upphaflega var honum ætlað að veita fólki úr hinum dreifðu byggðum Norðurlands tækifæri til að taka þátt í metnaðarfyllra kórstarfi í kröfuharðara umhverfi en það hafði kannski haft tækifæri til í sinni heimabyggð,“ segir Guðmundur Óli í samtali við Skessuhorn. „Nú er svo komið að kórinn er skipaður fólki sem er búsett frá Skagafirði og allt austur á Kópasker. Það þarf því að leggja marga kílómetra að baki fyrir hverja æfingu. Kórinn æfir því mun sjaldnar en hefðbundnir kórar, sem jafnan æfa einu sinni til tvisvar í viku. Þess í stað er æft í törnum. Af því leiðir að söngvararnir þurfa að undirbúa sig mikið sjálfir. Fyrir vikið er kórinn mikið til skipaður fólki sem er menntað í tónlist og getur undirbúið sig sem skyldi. Kórinn er semi-professional, eins og það kallast á erlendum málum. Ávinningurinn er ekki peningar heldur útrás fyrir áhugann á því að vinna í atvinnumannaumhverfi,“ segir hann.

 

Kór án undirleiks

Kammerkór Norðurlands telur á bilinu 16 til 20 manns, eftir því hvernig stendur á hverju sinni og mun hann koma fram án undirleiks á tónleikunum á Akranesi. „Kórinn syngur a capella, eins og það heitir á fagmálinu. Kórinn hefur eingöngu fengist við slíkan flutning þegar hann kemur fram á eigin tónleikum,“ segir Guðmundur Óli og bætir því við að honum þyki slíkur kórsöngur afar skemmtilegur. „Ég sem stjórnandi legg mikið upp úr líflegum flutningi og að samspil kórs og stjórnanda sé lifandi. Það er langskemmtilegast og mjög gefandi, bæði fyrir flytjendur og stjórnanda og vonandi áheyrendur líka,“ segir hann.

Aðspurður segir stjórnandinn að efnisskrá tónleikanna á Akranesi verði tvíþætt. „Við gáfum út disk síðastliðið haust með íslenskum kórverkum, meðal annars efni sem samið var sérstaklega fyrir kórinn. Við höfum einbeitt okkur að íslenskri kórtónlist alla tíð og fengið íslensk tónskáld til að semja fyrir okkur. Í aðra röndina verður flutt tónlist af þessum diski á tónleikunum en einnig verður hluti dagskrárinnar undir merkjum fullveldisafmælis Íslands. Við hlutum styrk frá því verkefni og munum flytja eldri kóralög, klassísk ættjarðarlög auk þess sem dálítið af hátindum erlendrar kirkjulegrar tónlistar mun slæðast með í prógrammið,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson að endingu.

Tónleikar Kammerkórs Norðurlands í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi hefjast kl. 16:00 á sunnudaginn, 6. maí. Miðasala er við innganginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir