Frestur til að skila framboðum rennur út eftir 25 tíma

Á hádegi á morgun, laugardaginn 5. maí, rennur út frestur til að skila framboðslistum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi. Hér á Vesturlandi er vitað að enn á eftir að tilkynna um framboðslista þrátt fyrir að frestur sé að renna út. Staða þeirra mála eftir sveitarfélögum er nokkurn veginn eftirfarandi (birt með fyrirvara).

Á Akranesi hafa þrír flokkar tilkynnt formlega um framboð. Það er Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og óháðir og Samfylking og óháðir. VG mun ekki bjóða fram lista né Björt framtíð, en báðir flokkarnir buðu fram við síðustu kosningar. Samkvæmt öruggum heimildum Skessuhorns er von á framboðslista frá Miðflokknum á Akranesi. Framboðum mun samkvæmt því fækka í sveitarfélaginu um eitt miðað við síðustu kosningar.

Í Borgarbyggð verða fjórir listar boðnir fram. Listar gömlu flokkanna; þ.e. Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og VG. Tilraunir til myndunar annarra lista báru ekki árangur, en það var meðal annars rætt í röðum stuðningsmanna Flokks fólksins og Miðflokksins að bjóða fram.

Í Hvalfjarðarsveit er ekki búið að tilkynna um framboðslista enn sem komið er. Vitað er um tilraunir til myndunar þriggja lista, enda hefur hópur fólks talað fyrir listakosningu og að látið verði af persónukjöri eins og gert var fyrir síðustu kosningar. Enn er því óvissa ríkjandi. Samkvæmt kosningalögum þarf að gefa tveggja sólarhringa frest berist einungis einn framboðslisti.

Í Dalabyggð og Reykhólahreppi er reiknað með að kosið verði persónukjöri líkt og í síðustu kosningum.

Í Stykkishólmi hafa þrír listar tilkynnt framboð og ólíklegt að þeir verði fleiri.

Í Grundarfirði hafa tveir listar tilkynnt framboð og ólíklegt að þeir verði fleiri.

Í Snæfellsbæ hafa tveir listar tilkynnt framboð og ólíklegt að þeir verði fleiri.

Í Eyja- og Miklaholtshreppi er óvíst um hvort listar verði boðnir fram eða persónukjör viðhaft. Listakosningar eru þó líklegri en hitt samkvæmt heimildum Skessuhorns.

Gert er ráð fyrir persónukjöri í Helgafellssveit og Skorradalshreppi.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir