Stefnir í enn einn stórviðburðinn í Brákarey

Hin árlega stórsýning Bifhjólafjelagsins Raftanna og Fornbílafjelags Borgarfjarðar verður í Brákarey í Borgarnesi laugardaginn 12. maí klukkan 13 – 17. Á þessu ári er minnst hundrað ára afmæli bílsins í Borgarnesi. Sá bíll var af Ford gerð og verða Ford bílar áberandi á sýningunni, að sögn Unnars Bjartmarssonar Rafts númer 22. „Nýjungar í ár eru helst í formi þess að kajakar og búnaður þeim tengdur verður kynntur og mjög áhugavert fyrirtæki sem selur dróna af öllum stærðum og gerðum mætir á staðinn,“ segir Unnar. „Þá mæta velflest mótorhjólaumboð til okkar auk fyrirtækja með verkfæri og fleira þessháttar.

Sýningin er greinilega farin að festa sig í sessi sem viðburður á landsvísu því okkur reyndist mjög auðvelt að fá umboð á staðinn. Mörg hver eru farin að reikna með þessu sem föstum lið í dagskrá sinni. Í fyrra vorum við með Hilmar Lúthersson í Raftaheimilinu með gömul hjól mestmegnis frá fimmta áratuginum, en að þessu sinni mætir Hjörtur Jónasson til okkar með safn sitt sem er að megninu til frá 7. og 8. áratugnum, allt breskt og gríðarlega vandaðar uppgerðir af hjólum.“ Unnar gat þess einnig að á auglýsingaplakati vegna hátíðarinnar er mynd af fyrsta bílnum í Borgarnesi og eiganda hans. Þá er jafnframt mynd af Bjarna Johansen sem er Raftur nr. 1, en hann situr á rússnesku mótorhjóli UM49 árgerð 1956. „Þetta hjól hafði hann m.a. með sér þegar hann var að vinna á jarðýtu fyrir margt löngu í héraðinu og notaði mikið,“ segir Unnar.

Geta má þess að félögin ákváðu í upphafi að frítt skyldi vera á sýningarnar þannig að allir gætu mætt með fjölskylduna og haft skemmtilegan dag með félögunum. Þá er vöfflusalan að sjálfsögðu á sínum stað. „Það er mikill fjöldi fornbíla og mótorhjóla væntanlegur á staðinn og er í sjálfu sér heilmikil sýning í þeirri gestakomu út af fyrir sig. Að sjálfsögðu erum við háðir veðri að allt gangi vel upp, en við erum vanir því að það sé gott og ætlum ekkert að fara að breyta því. Ýmsar uppákomur verða útivið ef vel viðrar sem of snemmt er að auglýsa en við búumst við miklu lífi í Brákareynni,“ segir Unnar Bjartmarsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir