Hækur Sigríðar og myndir Áslaugar í Safnahúsi

Laugardaginn 5. maí næstkomandi verður opnuð ný sýning í Safnahúsinu í Borgarnesi. Um er að ræða sýningu á ljósmyndum Áslaugar Þorvaldsdóttur og hefur ljóðskreytan Sigríður Kristín Gísladóttir ort hækur með innblæstri frá þeim, sem verða einnig til sýnis.  Sýningin ber heitið „Spegill litrófsins“ og byggir á ljósmyndum úr lífi Áslaugar. Myndirnar eru teknar á nokkurra ára tímabili, flestar á Íslandi en nokkrar á Spáni. Spánarmyndirnar eru flestar teknar í litlu fjallaþorpi, Cómpeta í Andalucia héraði en þar dvaldi Áslaug í maí og júní á síðasta ári. Íslandsmyndirnar eru aðallega stemningsmyndir frá Borgarnesi og nágrenni.

Áslaug er fædd í Borgarnesi og hefur búið þar mest alla æfi. Ljósmyndun hefur verið aðaláhugmál hennar lengi en hún starfar hjá Landnámssetri Íslands. Ugglaust hefur ljósmyndaáhugi afa hennar, Ólafs Guðmundssonar, átt stóran þátt í þessum áhuga, en hann tók óhemju mikið af myndum. Uppáhalds myndavél Áslaugar er gömul Olympus OM 2 filmuvél, en myndirnar á þessari sýningu eru margar hverjar teknar á Samsung S7, sem hún notar einnig sem síma.

Ljóðskreytan Sigríður Kristín Gísladóttir hefur búið á Akranesi síðustu ellefu árin. Hún hefur yndi af orðlist og lengi glímt við ljóðagerð. Ein af fyrirmyndum hennar í þeirri iðju er langamma hennar Sigríður Kristín Jónsdóttir sem orti tækifærisljóð og gaf út ljóðabók á eigin kostnað komin á áttræðisaldur.

Sýningin Spegill litrófsins er sett upp á faglegan og skemmtilegan hátt með samstarfi þeirra Áslaugar og Sigríðar, þvert á listgreinar. Áslaug hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að undirbúa sýninguna og Uppbyggingarsjóður styður einnig við menningardagskrá Safnahúss á árinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir