Svipmynd af fundinum, en á hann mættu á annað hundrað bæjarbúar.

Fjölmenni á fundi um tvær skipulagstillögur á Akranesi

Skipulags- og umhverfissvið Akraneskaupstaður boðaði í gær til almenns íbúafundar um skipulagsmál. Þar voru til kynningar tillögur um breytingu aðalskipulags og deiliskipulags vegna tveggja aðskildra framkvæmda í sjó fram. Annars vegar var kynnt fyrirhuguð lenging hafnargarðs og brimvarnargarðs í Akraneshöfn. Hins vegar var kynnt fyrirhuguð breyting á hafnarsvæðinu við Grenjar, en þar sækir Skaginn 3X um að fá að stækka land út í Krókalón til að rúma um 4000 fm viðbyggingu við núverandi iðnaðarhúsnæði á athafnasvæði fyrirtækisins. Skemmst er frá því að segja að aðsókn á fundinn var slík að fresta þurfti því að hefja hann í bæjarþingsalnum og fundurinn færður í aðalsal Grundaskóla. Þangað mættu á annað hundrað bæjarbúar.

Fram kom að fundur þessi er hluti af lögbundnu kynningarferli þegar skipulagsbreytingar eru annars vegar. Á fyrstu stigum skipulagsbreytinga þarf að kynna hugmyndir og kalla eftir viðhorfi hagsmunaaðila. Byrjað var að segja frá fyrirhugaðri lengingu aðalhafnargarðs Akraneshafnar um 90 metra og samsvarandi aukið umfang grjótvarnar. Árni Ólafsson frá arkitektastofu Gylfa Guðjónssonar fór ítarlega yfir skipulagsferlið og Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs fór yfir lögbundinn feril skipulagsbreytinga. Fram kom að báðar fyrrgreindar tillögur eru nú í kynningarfasa og því var boðað til fundarins. Fram kom hjá þeim að lenging hafnargarðs er til að bæta aðstæður skipa, koma í veg fyrir ókyrrð í höfninni, svo sem sog sem þar myndast, og auka öryggi. Á fundinum kom fram að helsti veikleiki fyrirhugaðrar framkvæmdar í Akraneshöfn væri sá að stór sementsflutningaskip gætu átt erfiðara með að athagna sig og leggja að Faxabryggju.

 

Umdeildari hugmyndir við Grenjar

Litlar umræður sköpuðust um fyrirhugaðar breytingar á aðal- og deiliskipulagi Akraneshafnar. Hið sama er ekki hægt að segja um tillögu sem snýr að breytingu aðal- og deiliskipulags við Grenjar sem einnig var til umræðu. Þar sækir hátæknifyrirtækið Skaginn 3X um að stækka landfyllingu út í Krókalón um einn hektara þannig að mögulega yrði hægt að byggja við iðnaðarhúsnæði sem fyrir er um allt að 4000 fermetra. Íbúar við Krókatún og Vesturgötu hafa mótmælt þeim áformum harðlega. Fram kom í kynningu skipulagssviðs að hverfisvernd gilti um svæðið og því kallaði landfylling á breytingu á gildandi aðalskipulagi. Árni Ólafsson arkitekt sagði að skýrt hefði komið fram athugasemdir sem bárust fyrir 21. mars síðastliðinn hefðu verið margar og afgerandi, bæði frá Skipulagsstofnun og íbúum sem hafa hagsmuna að gæta. Annars vegar toguðust á hagsmunir framsækis fyrirtækis í nýsköpun og iðnaði sem þarfnaðist stærra athafnasvæðis og hins vegar hagsmunir húseigenda sem teldu ótvírætt gengið á lögvarinn rétt sinn. Lóðarhafar við fyrrgreindar götur hafa auk þess réttindi eins og sjávarlóðum fylgir. Væntanlegar byggingar myndu skyggja á útsýni frá þeim, kvöldsól og almenn gæði svæðisins til útivistar. Þá hefði verið bent á að lífríki við Krókalón væri stefnt í hættu með að leyfa svo stóra landfyllingu.

 

Kynntu mótmæli sín

Eftir kynningu fulltrúa arkitektastofu og skipulagssviðs var orðið gefið frjálst. Fyrstir kváðu sér hljóðs tveir af fjórum fulltrúum sem mótmæltu skipulaginu með formlegum hætti. Þeir búa við Krókalón og krefjast þess að landfylling verði ekki heimiluð. Þeir Guðmundur Páll Jónsson og Sveinn Kristinsson, sem reyndar eru báðir fyrrum bæjarfulltrúar, fóru yfir mótmæli þeirra og lýstu kröfugerð. Sveinn Kristinsson sagði að mjög mikilvægt væri að íbúar kæmu að öllum stigum skipulagsbreytinga og að mark yrði tekið á kröfugerð þeirra. Héldu þeir fram að landfylling sem nú þegar hefur verið gerð til að stækka athafnasvæði Skagans 3X hefði orðið 7000 fermetrar í stað 2000 fermetra sem heimild hafði verið fyrir. Þetta átöldu þeir Guðmundur Páll og Sveinn og undir þau orð tók Jóhann Ársælsson þegar hann kvað sér hljóðs síðar á fundinum. „Sú fylling sem nú er búið að gera á athafnasvæðinu við Grenjar er langt umfram samþykkt í núverandi aðalskipulagi og við krefjumst þess að þetta verði leiðrétt,“ sagði Sveinn og áréttaði að þegar væri búið að fylla 5000 fermetra of mikið af landfyllingu út í Krókalón og það væri fráleitt að heimila hektara stækkun til viðbótar.

Geir Guðjónsson umhverfisfræðingur kvað sér einnig hljóðs og benti á að skort hefði efnahagsleg rök fyrir stækkun athafnasvæðis Skagans 3X á þessum stað og þau borin saman við aðra kosti.

 

Hverfisvernd

Á fundinum var gagnrýnt af nokkrum fundargestum að svo virtist sem bæjaryfirvöld litu léttvægt á hugtakið hverfisvernd. Um hverfisvernd segir í skipulagsreglugerð: „Í aðalskipulagi er unnt að setja fram stefnu og skilyrði varðandi verndun tiltekinna svæða. Þá eru þau afmörkuð sem hverfisverndarsvæði. Í aðalskipulagi skal þá gera grein fyrir hvaða þættir í umhverfi viðkomandi svæðis njóta skulu forgangs og tiltekinnar verndunar og hvaða réttindi, skyldur og kvaðir eru samfara hverfisvernd fyrir stjórnvöld og borgara varðandi landnotkun og framkvæmdir. Unnt er að hverfisvernda í aðalskipulagi þau svæði sem skilgreind eru sem „náttúruverndarsvæði“ í svæðisskipulaginu og tilgreina þar hvaða reglur skuli gilda um verndun og mannvirkjagerð á svæðunum.“

Jóhann Ársælsson benti meðal annars á helstu náttúruauðlindir íbúa væri fjaran og fjallið og þær auðlindir bæri að verja. Sagði hann að Skaginn 3X ætti lóðir á öðrum stað í bæjarfélaginu sem það gæti nýtt til stækkunar iðnaðarrýmis. Jóhann átaldi tæknideild og bæjaryfirvöld jafnframt fyrir að hafa sofið á verðinum og því hafi athagnasvæðið við Krókalón verið stækkað meira en skipulag heimilar. „Það er bæjarfulltrúum til skammar að hafa ekki tekið fram fyrir hendur Skagans 3X þegar fyllt var út í Krókalónið án heimildar,“ sagði Jóhann.

 

Fullnýta sín svæði

Ingólfur Árnason forstjóri Skagans 3X svaraði fyrirspurnum sem til fyrirtækisins var beint. Fram kom hjá honum að vöxtur þess hefði verið um 30% á ári og nú væri verið að fullnýta húsakost og aðstöðu bæði á Akranesi og á Ísafirði þar sem fyrirtækið hefur einnig starfsstöðvar sínar. „Við viljum fullnýta þær lóðir sem við höfum og nýta húsnæði sem best, hvort sem er á Eyrinni á Ísafirði eða við Grenjar á Akranesi. Þegar svæðið hér verður fullnýtt verður vexti okkar á Akranesi þar með hætt.“ Sagði hann að það væri ekki á áætlun Skagans 3X að byggja starfsemi upp á öðrum stað á Akranesi en við Grenjar. „Það væri einfaldlega vitlaust af okkur. Eftir að fyrirtækið getur ekki stækkað meira vegna landrýmis færum við okkur bara annað, þangað sem fólk þarf vinnu,“ sagði Ingólfur. Hann tók fram síðar í umræðunni að höfuðstöðvar Skagans 3X væru á Akranesi og það stæði ekki til að flytja þær annað, hvernig sem umsókn þeirra um landfyllingu í Krókalón yrði afgreidd af bæjaryfirvöldum.

 

Endanleg afgreiðsla í höndum nýrrar bæjarstjórar

Framhald þessa máls verður að skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar mun taka málið fyrir að nýju og veita álit sitt til bæjarstjórnar. Ef niðurstaðan verður að halda áfram með bæði þessi skipulög þarf að auglýsa skipulagsbreytingarnar og þá gefst íbúum og öðrum hagsmunaðilum að nýju kostur á að koma með athugsemdir. Endanleg afstaða til málsins ræðst síðan eftir hefðbundinn auglýsingatíma á síðari stigum ferilsins. Ljóst er að það verður nýrrar bæjarstjórnar að afgreiða bæði þessi mál á hvern hátt sem það verður gert.

Líkar þetta

Fleiri fréttir