Alexander heldur hér á einum rígvænum þorski úr Skarphéðni SU.

Afar líflegt við Akraneshöfn þessa dagana

Mjög gott fiskerí hefur verið á miðunum við Akranes eftir að hrygningarstoppi lauk á Vestursvæði 21. apríl síðastliðinn. Aflabrögð undanfarna daga hafa verið með besta móti að sögn þeirra Alexanders Eiríkssonar og Bjarna Bragasonar sem annast löndun og sölu aflans fyrir Fiskmarkað Snæfellsbæjar. Línubáturinn Eskey kom t.d. inn til löndunar á mánudaginn með metafla í einum túr, eða 16 tonn. Daginn eftir var Eskeyin með 14 tonn og síðan 12 tonn í gær. Þetta gerir á fimmta tug tonna á þremur dögum.

Þá hófst strandveiðitímabilið í gær. Strax um ellefuleitið í gærmorgun kom fyrsti bátur að landi með dagsskammtinn, eða 770 kíló af þorski. Sömu sögu var að segja af flestum þeim bátum sem gerðir verða út á strandveiðar frá Skaganum, þeim gekk vel í upphafi tímabilsins. Auk þeirra eru nokkrir handfærabátar gerðir út frá Akranesi. Steinólfur Jónasson á Skarphéðni SU-3 var að landa tveimur tonnum af stórþorski þegar ljósmyndari Skessuhorns kom við á bryggjunni síðdegis í gær. Steinólfur rær einn og sagði hann afar vel hafa gengið á veiðunum að undanförnu.

Steinólfur Jónasson er hér að landa úr báti sínum Skarphéðni SU.

Gauji var mættur til að stýra löndunarkrananum. Vanur maður þar á ferð.

Aflinn úr Skarphéðni á leið á markaðinn.

Eskey ÓF-80 hefur fiskað afar vel að undanförnu.

Það er alltaf fallegt þegar vel veiðist.

Líkar þetta

Fleiri fréttir